Aðstandendur geta, með ströngum skilyrðum, heimsótt heimilisfólk á hjúkrunarheimilum frá og með 4. maí. Aðeins einn getur komið í heimsókn i einu. Stjórnvöld kynna reglurnar nánar í næstu viku. 

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir í viðtali við Spegilinn á RÚV að vinnuhópur sem hann er í, sem skipaður er fulltrúum Almannavarna, Embættis landlæknis, heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila, hafi fundað reglulega síðustu vikur um stöðuna á hjúkrunarheimilum.

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu. Mynd/Hrafnista

Fram að 4. maí verður óbreytt ástand og tilslakanir verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudag, 22.apríl. Pétur segir í sama viðtali að farið verði mjög hægt í allar tilslakanir. „Grunnurinn gengur út á að það getur bara einn komið í heimsókn í einu samkvæmt ákveðnum reglum sem verið er að útfæra. Aðalmálið er kannski að þetta verður mikill léttir. Þann 4. maí verður heimsóknarbann búið að standa yfir í tæpa 60 daga. Þetta eru auðvitað ótrúlegar aðstæður, eins og alþjóð veit,“ segir Pétur.

Mynd af Hrafnistu/OBÞ