Hafnarfjarðarbær og hópferðafyrirtækið Teitur Jónasson ehf. hafa gert með sér samning um áætlunarakstur milli Bláfjalla og Hafnarfjarðar þegar veður leyfir og opið er á skíðasvæðinu. Tillaga um Bláfjallarútu frá Hafnarfirði er ein af tillögum Ungmennaráðs Hafnarfjarðar sem lagðar voru fram á fundi bæjarstjórnar vorið 2020 og færsluráð samþykkti fyrir árið 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Lagt er upp með að Bláfjallarútan fari eina ferð á dag frá Brettafélagi Hafnarfjarðar við Flatahraun 14 um Mjódd og Rauðavatn (háð veðri og opnun í fjallinu). Viðeigandi þótti að stoppistöð rútu í Hafnarfirði sé staðurinn þar sem vetrarstarf barna og ungmenna á snjóbrettum og hjólabrettum er í fullum gangi alla daga vikunnar. Ekið verður eftir rútuáætlun skíðasvæðanna og er grunngjald kr. 3.000.- per farþega. Samningur við Teit hljóðar upp á lágmarksfjölda farþega í hverja ferð og skuldbindur sveitarfélagið sig til 15.000.- kr. greiðslu fyrir hvert útkall nái fjöldinn ekki lágmarki sem er 8 manns. Ef kallað er til auka ferðar utan áætlunar skíðasvæðanna er viðmiðið 19 manns í hverri ferð. Samningurinn er ótímabundinn og uppsegjanlegur með 6 mánaða fyrirvara.

Mynd/Hafnarfjarðarbær: Skrifað hefur verið undir samning um Bláfjallaferðir beint frá Hafnarfirði. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Haraldur Teitsson framkvæmdastjóri Teits Jónassonar ehf. undirrituðu samninginn í dag.

„Það er ánægjulegt að sjá þessa tillögu ungmennaráðs verða að veruleika. Unga fólkið okkar veit sjálft best hvaða þjónustu vantar fyrir þau og það er okkar yfirvalda að hlusta á hugmyndir þeirra og framkvæma eftir því sem við höfum tækifæri til. Önnur hugmynd þeirra um skólahreystivöll í Hafnarfirði kom til framkvæmda í lok sumars 2020 með opnun slíkrar brautar á Hörðuvöllum. Hópur þeirra Hafnfirðinga sem stundar skíði og bretti fer ört vaxandi og það er mikilvægt að geta ýtt undir vöxtinn og greiða aðgengið að fjallinu með þessum hætti,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar í tilkynningunni.

Um Brettafélag Hafnarfjarðar

Brettafélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 2012 og var upphaflegur tilgangur félagsins að koma upp aðstöðu innanhús til hjólabrettabrettaiðkunar. Félagið hefur vaxið hratt og er nú rekið í þremur deildum hjólabrettadeild, snjóbrettadeild og bmx deild. Iðkendur félagsins sem stunda skipulagðar æfingar eru um 140 talsins á aldrinum 5 til 18 ára, en einnig sækir fjöldi barna og unglinga innanhússaðstöðuna á degi hverjum.

———————————————————

Forsíðumynd/Hafnarfjarðarbær: Hér má sjá fulltrúa Brettafélags Hafnarfjarðar, Hafnarfjarðarbæjar og Teits við undirritun samnings við Teit Jónasson ehf. í dag í húsnæði Brettafélagsins. F.v: Aðalsteinn Valdimarsson framkvæmdastjóri BFH, Björgvin Valdimarsson formaður stjórnar BFH, Jóhann Óskar Borgþórsson varaformaður stjórnar BFH, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar og Haraldur Teitsson framkvæmdastjóri Teits Jónassonar ehf.