Í byrjun þessa árs urðu eigendaskipti hjá Fjarðarpóstinum. Olga Björt Þórðardóttir, sem hefur ritstýrt blaðinu síðan 2017, tók við rekstrinum af Steingrími Guðjónssyni, eiganda prentsmiðjunnar Steinmark og verður blaðið framvegis rekið af einkahlutafélaginu Björt útgáfa. Steingrímur hafði átt og rekið Fjarðarpóstinn síðan árið 2001. Fyrir þann tíma prentaði hann einnig blaðið í nokkur ár. Við kíktum við hjá Steingrími í tilefni tímamótanna.

Steingrímur við prentvélina sem lengi vel var notuð til að prenta Fjarðarpóstinn.
„Ég fór í þennan rekstur á sínum tíma fyrst og fremst vegna þess að ég á prentsmiðju. Þetta var verkefni fyrir prentsmiðjuna. Þegar Halldór Árni Sveinsson og Sæmundur Stefánsson ákváðu að rekstrinum, sömdum við um það að ég keypti blaðið af þeim og þá að sjálfsögðu prentaði ég það áfram,“ segir Steingrímur, en á þessum tíma var blaðið yfirleitt átta vikulegar síður, þar af fjórar í fjórlit og fjórar í svarthvítu. Árið 2007 keypti Steingrímur nýja prentvél sem gat prentað fimm liti; fjórlit öðrum megin og svarthvít hinum megin.
„Mér hefur alltaf þótt vænt um Fjarðarpóstinn“
„Það varð til skamms tíma mikil búbót af því, en í tímans rás jukust kröfur um að allt blaðið yrði í lit. Mér hefur alltaf þótt vænt um Fjarðarpóstinn og ég veit að hann er núna kominn í góðar hendur. Ég er fyrst og fremst að hætta rekstri blaðsins út frá þeirri ákvörðun að láta prenta blaðið annars staðar, en það er prentað hjá Ísafoldarprentsmiðju. Það með er tilgangur þess að ég reki þetta búinn og prentþátturinn farinn úr Steinmark. Prentsmiðjan heldur þó áfram sínnu striki, enda treystir hópur viðskiptavina á hana,“ segir Steingrímur og óskar Fjarðarpóstinum áfram alls góðs.

Fyrsta tölublað Fjarðarpóstsin í eigu Steingríms.

Fyrsta tölublaðið með öðrum lit en svarthvítu.

Fyrsta tölublaðið prentað í fjórlit.
Vill byggja upp blað með bæjarbúum

Olga Björt, nýr eigandi Fjarðarpóstsins.
Nýr eigandi Fjarðarpóstsins, Olga Björt Þórðardóttir, hefur ritstýrt blaðinu síðan 2017. Hún segir að ritstjórnarstefnan sem sett var árið 2016 verði í svipuðum dúr en stefnt sé að auknum áherslum á vef, samfélagsmiðla og beinar útsendingar.
Olga Björt segir að áfram muni vera lögð mest áhersla á jákvæða og uppbyggilega umfjöllun, fréttir, myndir og viðtöl. „Við munum gera okkar besta í að endurspegla mannlíf og menningu í Hafnarfirði og segja sögu hans og fólksins jafn óðum. Ég hef engra pólitískra eða annarra hagsmuna að gæta og held ekki með einu íþróttafélagi fram yfir önnur. Áhugi minn á fólki og áhrifum þess á samfélagið og líðandi stund eru helsti hvati þess að mig langaði að taka þetta mikilvæga hlutverk að mér og þakka Steingrími traustið og góða samvinnu.“ Þá segist Olga Björt fagna öllum athugasemdum og ábendingum og mun sinna þeim af fremsta megni. „Ég vil fyrst og fremst byggja upp blað með bæjarbúum og atvinnulífinu á sem fjölbreyttastan hátt. Ég er 10 ára Hafnfirðingur og hlakka til að setja mig enn betur inn í samfélagið með hjálp lesenda og auglýsenda. Ekki hika við að hafa samband, bæði varðandi samstarf, fasta liði, vefsjónvarp eða annað í ritstjorn@fjardarposturinn.is.“
Ritstjórar Fjarðarpóstsins frá upphafi:
1983 – 1986
Guðmundur Sveinsson
1987
Rúnar Brynjólfsson
1988 – 1993
Fríða Proppé
1994 – 1996
Friðrik Indriðason
1997
Sæmundur Stefánsson
1998
Hólmfríður Þórisdóttir
1998 – 2001
Halldór Árni Sveinsson
2002 – 2016
Guðni Gíslason
2016 – 2017
Ólafur Már Svavarsson
2017
Olga Björt Þórðardóttir