Eva Ágústa Aradóttir vakti mikla athygli hér á landi og víðar sem fyrsta transkonan í hlutverki fjallkonu 17. júní hér í Hafnarfirði árið 2017. Hún er fædd 1984 og fékk mjög ung ADHD greiningu og fannst snemma að heimurinn væri á móti sér og hún ekki passa inn í normið. Eva mátaði fyrst kvenföt 12 ára og vildi vera ein af stelpunum en kom síðar út úr skápnum sem tvíkynhneigður, hommi og svo transkona. Hafnfirðingur hitti þessa mögnuðu konu á heimili hennar við Álfaskeið.

Líf Evu hefur alla tíð tekið meira á en hjá flestum. Hún fékk ADHD greiningu sem barn og einnig misþroska, sem í dag er þekkt sem einhverft róf. „Mér fannst strax í æsku heimurinn vera á móti mér, þótt það væri ekki raunin. Ég á góða foreldra og allt var gert til að hjálpa mér í gegnum erfiðleikana. En heima fyrir voru einnig erfiðleikar sem höfðu einnig áhrif,“ segir hún, elsta systkinið af þremur. „Ég og bræður mínir vorum öll mjög fjörug. En vegna þess að ég var á einhverfa rófinu þá var ég seinþroska á margan hátt og margt sem ég áttaði mig ekki á. Ég átti t.a.m. erfitt með að eignast vini, lenti oft í árekstrum og var strítt. Ég lenti ekki oft i slagsmalum, en þegar það gerðist upplifði eg mig aldrei líkamlega sterka, þótt ég væri það, því það voru kannski tveir eða þrír strákar að ráðast á mig í einu. Á endanum var ég orðin svo tortryggin að jafnvel það sem ég upplifði sem stríðni var það ekki. Ég var lengi vel langt fram á fullorðinsár, mjög vanmáttug gagnvart unglingahópum. Svona framkoma fylgir manni alla tíð.“
Mátaði kvenföt af mömmu sinni
Eva segist ekki muna mikið eftir æskuárunum en það sé líklega einhver vernd falin í því og að hún hafi gert upp ýmislegt frá þeim tíma með hjálp sérfræðinga. „Ég fór mjög brotin inn í unglingsárin. Um 12 ára aldur fann ég löngun til að máta kvenföt af mömmu og mér leið vel í þannig fötum. En ég skammaði þó sjálfa mig jafn óðum því mér fannst það rangt. Þá vissi ég ekki að það væri eitthvað til sem heitir trans, þótt ég hefði séð klæðskiptinga í sjónvarpinu eins og þeir voru kallaðir í dag og sóst eftir að horfa á þannig efni.“ Fljótlega fór Eva að sanka að sér fötum og safna í poka. Hún henti þó oft fötunum en reddaði sér öðrum aftur. „Milli 16 og tvítugs fór ég meira að sætta mig við þetta og það jókst mikið eftir tvítugt. Ég fór að kynnast stelpuvinum í Flensborg og sá að sumir hommar voru kvenlegir og það var einn með mér í Flensborgarkórnum sem var einn af stelpunum. Ég vildi verða það líka en ég upplifði það erfitt þegar maður er strákur og ekki hommi. Ég hugsaði með mér að koma út sem tvíkynhneigður. Ekkert mjög meðvitað samt.“

Tvíkynhneigð og síðar hommi
Um þetta leyti klofnuðu Samtökin 78 því þá máttu tvíkynhneigðir ekki vera í þeim. „Það var mikið um flokkanir. Núna flæðir þetta meira og hægt að vera margt. Við það að koma út úr skápnum sem tvíkynheigður og síðar hommi þá fór ég að leyfa mér meira að klæðast kvenfötum og hlusta á „stelpu“-popptónlist eins og Justin Timberlake og Britney Spears. Hef þó mjög gaman af alls kyns tónlist,“ segir Eva. Þegar Facebook notkun byrjaði á Íslandi fyrir um 10-11 árum stofnaði Eva strax aðgang undir nafninu Eva Ágústa. „Þá var ég búin nota það síðan 2006-2008 og á þeim tíma var söngkonan Ágústa Eva Erlendsóttir þekkt sem Sylvía Nótt. Eva hlær þegar hún rifjar upp að hafa fengið óvart skilaboð frá einhverjum Grikkja sem dásamaði hana fyrir Eurovision atriðið.
Þorði ekki að biðja um annan geðlækni
Á svipuðum tíma gekk Eva í Búddistasamtök þar sem hún fékk fyrst frelsi og samþykki til að vera kona. „Ég fór með vinkonum mínum, klæddi mig í kvenföt fyrir samverur og fór svo aftur og skipti um föt áður en ég fór heim. Þessi samtök einblíndu á að gera heiminn betri; hver og einn út frá sjálfum sér og sem fyrirmyndir fyrir aðra.“ Eva faldi þetta fyrir fjölskyldunni en áttaði sig á að Hafnarfjörður getur stundum verið lítill. „Ég vissi að þetta yrði erfitt fjölskylduna og hélt áfram að loka á þetta. Þetta tvöfalda líf mitt var farið að valda vinkonum mínum vandræðum úti á við. Það verður til þess að ég tek það skref að að tala við geðlækni. Ég áttaði mig á því að í raun yrði ég að velja um að fara í kynleiðréttingarferli eða hætta að lifa lífinu sem raunverulega ég.“ Ferlið hófst 2011 og aðgerð fór fram 2013. Í millitíðinni flutti Eva að heiman því stuðningur og skilningur voru ekki til staðar á þeim tíma. „Geðlæknirinn vildi mjög mikið hjálpa mér og sýndi því skilning að ég væri trans en ég upplifði svo margt annað sem hann var ekki fær um að hjálpa mér með vegna þess að hann skorti skilninginn. Þegar ég sagði honum að mér liði illa var oftast viðkvæðið að ég stæði mig samt svo vel og að eftir aðgerð yrði allt í lagi. Sem varð ekki raunin. Ég þorði ekki að biðja um annan geðlækni.“

Fékk ómetanlega hjálp á Kleppi
Í enda ferlisins fyrir aðgerðina var reynt að veita Evu sálfræðihjálp í gegnum Hafnarfjarðarbæ nokkra tíma, en svo var því lokið. „Þar kom í ljós margt sem ég skildi ekki um sjálfa mig fyrr en nokkrum árum síðar, s.s. einhverfurófið og persónleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum. Ég kafaði aldrei inn á við og leyfði engum tilfinningum að njóta sín.“ Eftir aðgerðina veiktist Eva og fór á geðdeild í fyrsta sinn og við tók innlagnatímbil sem er ekki lokið. „Þetta var mikil vanlíðan, einmanaleiki og mér fannst engin framtíð í mér og að ég væri ömurleg sem kona og vinkona. Ég fór í framhaldinu inn á Klepp í enduhæfingu í níu mánuði 2014. Þar fékk ég ómetanlega hjálp og skilning. Í framhaldinu fór ég í meðferð á Hvítabandið, VIRK, Janus Endurhæfingu og í Hlutverkasetrið í Borgartúni, þar sem fólk sem hefur dottið út af vinnumarkaði getur sótt. Mjög góður staður.“ Eva tók síðan mikilvægt skref þegar hún hætti áfengisneyslu árið 2015, eftir að hafa deyft sig með því og lyfjum, og fékk í kjölfarið mikinn stuðning frá öðrum alkóhólistum.

Fyrsta trans-fjallkonan á Íslandi
Í sumarbyrjun 2017 var haft samband við Trans Ísland til spyrjast fyrir um hafnfirska transkonu. Svo hafði Geir Bjarnason beint samband við Evu, en hún þekkti hann aðeins, og bað hana um að taka að sér hlutverk fjallkonu á 17. júní, fyrst transkvenna á Íslandi. „Ég hafði í fyrstu afþakkað að vera fjallkonan en þegar Geir hafði samband þá hugsaði ég að ég gæti ekki afþakkað þetta frábæra tækifæri. Annríki sérsaumaði svo á mig fallegan skautbúning. Þetta tók á en var um leið mjög gaman. Í raun varð dýpri merking og viðurkenning á því að að vera kona með því að fara í þjóðbúninginn. Þetta var mikill heiður og í kjölfarið varð ég fyrirmynd og umfjöllun birtist í íslenskum og erlendum miðlum.“
Undanfarin tvö ár hefur Eva kynnst sjálfri sér betur með hjálp sálfræðings hjá Hvítabandinu á Landspítalanum. Þá varð henni mikill léttir að greinast á einhverfu rófi á þessu ári. „Ég er opnari, hugrakkari og hef öðlast meiri færni til að takast á við tilfinningar eins og vanmátt, reiði og sorg. Ég gefst aldrei upp, er með sterka réttlætiskennd, vel gefin, fróðleiksfús, með húmor og gagnrýna hugsun. Ég er alltaf að bæta mig í sjálfsást og að vera mildari við mig,“ segir Eva brosandi og bætir við: „Ég er aðeins að kljást við ofþyngd sem hrjáir mig. Það er mikilvægasta verkefnið framundan; að synda og bæta mataræði, rútínu og sjálfstraustið. Og svo það mikilvægasta og gott að ég hef stuðninginn frá fjölskyldunni minni í dag.“
Eva lauk sveinsprófi í ljósmyndun árið 2011 og hefur tekið fjölda fallegra mynda. Þessar eru meðal þeirra:









