Laugardaginn 30. maí opnar ný sýning í Hafnarborg í tilefni af HönnunarMars, sem mun nú fara fram dagana 24.–28. júní. Sýning Hafnarborgar á HönnunarMars í ár ber titilinn efni:viður og verður viðurinn sem efni einmitt í forgrunni á sýningunni.

Þar verður sjónum enn fremur beint að mörkum listgreina sem hafa orðið sífellt óljósari á síðustu árum og eru jafnvel að einhverju marki hætt að skipta máli.

Hugmyndin að baki sýningunni er að tefla saman hönnuðum og listafólki með mismunandi bakgrunn og ólíkar áherslur í myndmáli, sem öll eiga það þó sammerkt að vinna með og kljást við þetta fallega efni, í einni eða annarri mynd, þegar þau framkalla hugmyndir sínar. Þá verða sýnd ný og nýleg dæmi um verk á sviði myndlistar og hönnunar, sem öll eru unnin úr sama efni:við.

Þátttakendur sýningarinnar eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Agustav (Ágústa Magnúsdóttir og Gustav Jóhannsson), Björn Steinar Blumenstein, Guðjón Ketilsson, Indíana Auðunsdóttir, Nordic Angan, Rósa Gísladóttir, Sindri Leifsson, Tinna Gunnarsdóttir og Unndór Egill Jónsson. Sýningarstjóri er Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.

Sýningin var upphaflega á dagskrá Hafnarborgar í byrjun vors en var frestað af heilsufarssjónarmiðum og mun þess vegna standa yfir í sumar frá 30. maí–23. ágúst. Ekki verður formleg opnun eða opnunarhóf að þessu sinni, heldur verður sýningin opin samkvæmt hefðbundnum opnunartíma safnsins frá og með laugardeginum 30. maí, kl. 12–17. Þá verður sérstök dagskrá, í tengslum við HönnunarMars, tilkynnt síðar.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.