Á tímum heimasóttkvía og samkomubanna eru margir sem ekki eiga fólk að til að skjótast fyrir sig í nausynlegar sendiferðir og er kannski feimið við að biðja um hjálp. Þá er gott fyrir samfélag eins og Hafnarfjörð að eiga hauk í horni. Sá haukur heitir reyndar Ingólfur Birgisson og býr á Völlunum. Hann skrifaði færslu á Facebook síðu íbúa Vallahverfis í gærkvöldi og bauð fram þjónustu sína.
„Mér fannst ég bara verða að gera eitthvað til að hjálpa. Ég þekki fólk í heimasóttkví, bæði ættingja og vini. Það styttist örugglega í að fólk verði í vandræðum,“ Ingólfur, í samtali við Hafnfirðing, en færslan hans, sem sett var inn fyrir 13 klukkutímum, var á þessa leið:
„Hæ, ert þú með undirliggjandi sjúkdóma, eldri borgari eða í áhættuhópi? Ef þig vantar eitthvað úr búð, apóteki eða eitthvað annað þá býð ég fram aðstoð mína. Þið getið sent mér einkaskilaboð ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað með.“
Færslan hefur þegar fengið gríðarlega mikil og jákvæð viðbrögð. Um 250 líkar við hana og fjöldi manns hefur skrifað athugasemdir til að lýsa yfir ánægju og þakklæti fyrir þetta góða framtak.
Ingólfur, sem er fjölskyldumaður og á þrjú börn, hefur búið í Hafnarfirði í átta ár og starfar við fiskvinnslu. Hann segist alltaf hafa verið þannig gerður að hann vilji hjálpa öðrum. „Ég lít þetta ástand með COVID-19 mjög alvarlegum augum og mér finnst að það ætti að loka grunnskólum og leikskólum líka. En fyrst og fremst eigum við að fara eftir settum fyrirmælum og passa upp á börnin okkar og gamla fólkið,“ segir Ingólfur að lokum. Símanúmer hans er 899-0751.
Mynd/OBÞ