Leikfélag Flensborgarskóla frumsýndi söngleikinn Systra Akt í liðinni viku í nýjum búningi. Verkið er byggt á samnefndri kvikmynd og er sýningin stútfull af nýrri tónlist, gríni og dönsum. Fjarðarpósturinn kíkti á generalprufuna, kvöldið fyrir frumsýningu.
Þegar skemmtikrafturinn Deloris (sem Kolbrún María Einarsdóttir túlkar af miklu öryggi) sér kærastann sinn fremja morð verður henni umhugað um sitt eigið líf. Vitnavernd í nunnuklaustrinu Saint Catherins er það sem tekur næst við. Henni reynist erfiðara fyrir að vera eins og hinar nunnurnar og til að halda henni frá vandræðum innan klaustursins er henni falið það verkefni að taka þátt í kórnum. Þar brýst gleðin út, en ætli það megi? Sýningin er afar skemmtilega upp sett, bráðfyndin og mikil gæði í tónlist og söng. Klárlega hæfileikafólk þar á ferð sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni.
Verkinu er leikstýrt af Júlíönu Söru Gunnarsdóttur, tónlistarstjórnandi er Ásgrímur Geir Logason og Aníta Rós Þorsteinsdóttir er danshöfundur. Leikarar í sýningunni eru Aldís Ósk Davíðsdóttir, Ásjörn Ingi Ingvarsson, Guðjón Ingi Hauksson, Nicolas Leó Sigurþórsson, Sindri Kristinsson, Sóley Dís Heiðarsdóttir, Kolbrún María Einarsdóttir, Kristófer Örn Halldórsson, Lára Axelsdóttir Scott, Sonja Björk Tirado, Stefanía Arna Víkingsdóttir og Vala Dagsdóttir.
Hér má nálgast miða á sýninguna.
Meðfylgjandi myndir tók Bergdís Norðdahl.
Myndir og myndbönd: Bergdís Norðdahl