Hafnarfjarðarbær gerði nýlega áframhaldandi samning við Skólamat um framleiðslu og framreiðslu á mat fyrir leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar 2019-2023. Skólamatur fagnar 20 ára afmæli í ár og eigandi og stofnandi fyrirtækisins, Axel Jónsson, bjó um tíma í miðbæ Hafnarfjarðar og leikskólarnir sem hann þjónustaði fyrst eru hér í bæ. Við hittum Axel og börn hans, Fanný og Jón, sem hafa yfirumsjón með rekstri þessa 120 starfsmanna og 50 starfsstöðva fjölskyldufyrirtækis.

Axel Jónsson, stofnandi Skólamatar.

Axel fékk hugmyndina að bjóða upp á skólamat árið 1990, leyfði henni að gerjast og reið svo á vaðið og stofnaði Matarlyst árið 1999, sem í dag ber nafnið Skólamatur. „Einsetning skóla varð til þess að það þurfti að bjóða upp á mat í grunnskólum. Magnús Gunnarsson, fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði, bað mig um að sjá um mat í fimm leikskólum hér árið 2005 því það var ástand á vinnumarkaðnum og vantaði fólk. Við vorum tveir kokkar sem elduðum á morgnana hér í Keflavík, ókum svo með matinn í Hafnarfjörð og fórum svo heim eftir matinn og vöskuðum upp,“ rifjar Axel upp. Síðan hefur fyrirtækið vaxið og þjónustan heldur betur breyst og eflst.

Ólík viðhorf styrkleiki
Skólamatur er fjölskyldufyrirtæki. Sonurinn Jón er framkvæmdastjóri og Fanný er mannauðs- og samskiptastjóri. „Við erum ólík, með ólík viðhorf og Tökumst alveg á um málin með okkar styrkleikum. Við réðum til okkar nokkurs konar markþjálfa sem hittir okkur einu sinni í mánuði og fer yfir málin með okkur. Það er nauðsynlegt. Fanný er samskiptaséní og ég er þessi sem hugsar í tölum, framleiðsluáætlunum og slíku. Pabbi með sína mikilvægu reynslu og þekkingu en hefur aðeins stigið til hliðar í daglegum rekstri, en er stjórnarmaður í fyrirtækinu,“ segir Jón. Fanný bætir við að gott viðmót frá starfsfólki skiptir miklu máli og hafi áhrif á allan rekstur. „Fólk sem sækir í þessi störf er gjarnan með börn á grunnskólaaldri og langar að komast aðeins í þetta umhverfi 4 tíma á dag. Við erum heppin með starfsfólk og besta hrós fyrir okkur er að oft eru mæðgur, systur, frænkur og vinkonur eru að vinna hjá okkur, sem hafa mælt með því. Góður matur fyrir starfsfólkið skiptir líka máli og einnig þeirra líðan.“

Fjölbreytt og næringarríkt. Mynd aðsend.

Hafragrautur á morgnana slær í gegn
Skólamatur býður frá og með haustinu upp á hafragraut á morgnana í hafnfirskum grunnskólunum, sem strax hefur slegið í gegn hjá nemendum og starfsfólki. „Það að bjóða upp á hafragraut er risastórt skref í aukinni hollustu, auk ávaxtaáskriftar. Heimilin ákveða hvort þau vilja panta matinn, við innheimtum beint til þeirra og Hafnarfjarðarbær niðurgreiðir. Við eldum 11 – 12 þúsund mata á hverjum degi og leggjum mikla áherslu á ferskleika, gæða hráefni og hreinlæti,“ segir Jón og bætir við að þau vilji lifa í sátt við umhverfið og náttúruna og vinni markvisst að því að lágmarka matarsóun. Þau flokki og endurvinni umbúðir og annað sem til falli. „Við leggjum upp úr ferskleika hráefnisins sem notað er í daglegar máltíðir og þær eru eldaðar frá grunni, eftir einföldum uppskriftum, með fáum innihaldsefnum, litlu geymsluþoli og fara ferskar á diskana.“

Góð næring stuðlar m.a. að betri líðan barna. Mynd/aðsend.

Fanný tekur fram að foreldrar skólabarna geri sér stundum ekki alveg grein fyrir að Skólamatur bjóði upp á tvíréttað. „Það er alltaf vegan réttur í boði samhliða öðrum mat og við virðum hnetuofnæmi og alls kyns óþol. Hráefnin eru framleidd sérstaklega fyrir okkur og við leggjum áherslu á að nota eins mikið innlent og hægt er, enda var sérstök krafa gerð um það hjá heilsueflandi Hafnarfjarðarbæ. Ávallt er notast við íslenskt kjöt, fisk og grænmeti eins og fáanlegt er. Börn eru líka svo meðvituð um þetta. Rannsóknir sýna að það er miklu auðveldara að ná athygli nemenda sem fá næga næringu og okkar hlutverk er að gera matinn hollan og jafnframt girnilegan fyrir þau,“ segir Fanný að lokum.