Í gær fór fram síðasta umferð í Raflandsdeild karla og -kvenna í borðtennis þar sem nýir deildarmeistarar voru krýndir í báðum deildum. Í Raflandsdeild karla varð BH deildarmeistari með fullt hús stiga. BH rauf þar með 43 ára samfellda sigurgöngu KR og Víkings í efstu deild karla og kom sér í hóp fjögurra félaga sem hafa sigrað í efstu deild, ásamt KR, Víkingi og Erninum.
Kvenna megin réðust úrslit ekki fyrr en í síðustu leikjum dagsins og enduðu leikar þannig að Víkingur og KR voru efst jöfn að stigum. Víkingur var með betra leikjahlutfall og hlutu þannig deildarmeistaratitilinn. Sérstaka athygli vakti að Agnes Brynjarsdóttir, leikmaður Víkings, er einungis tólf ára gömul og þar með yngst allra kvenna til að verða deildarmeistari.
Í sigurliði BH eru Birgir Ívarsson, Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, Magnús Gauti Úlfarsson og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson. Í sigurliði Víkings eru Agnes Brynjarsdóttir, Nevena Tasic, Stella Karen Kristjánsdóttir og Þórunn Ásta Árnadóttir.
Mynd aðsend: Íslandsmeistarar Víkings og BH. Á myndinni eru (frá vinstri) Stella K. Kristjánsdóttir, Agnes Brynjarsdóttir, Nevena Tasic, Jóhannes Bjarki U. Tómasson, Magnús G. Úlfarsson, Pétur Marteinn U. Tómasson og Tómas I. Shelton (þjálfari BH).