Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur rekið þjónustufyrirtækið Veðurvaktina um skeið. Hann opnaði í desember nýjan veðurvef, Blika.is, þar sem leitast er við að birta spár fyrir staði eftir ákvörðun hvers og eins. Við settum okkur í samband við Einar og spurðum hann út í stofnun síðunnar og virkni hennar.
Í daglegum störfum sínum við veðurspár fannst Einari einfaldlega vanta staðspár fyrir landið allt sem reiknaðar eru í þéttu neti. „Við þekkjum yr.no. Þar er reikninetið of gróft. Veðurstofan er enn að þróa eigið líkan og leggur meiri áherslu á framsetningu með veðurþáttaspám (veðurkortum). En það er líka gaman að skapa eitthvað nýtt sem jafnframt kemur öðrum að gagni,“ segir Einar og bætir við að fólk eigi að geta valið á milli þúsunda staða og örnefna um land allt. „M.a. á að vera hægt að kalla frá spá eftir heimilisfangi saman með póstnúmeri. Það verður vonandi tilbúið á Bliku 1. febrúar. Spárnar eru til 10 daga í klst. upplausn. Fyrstu 66 klst. er reiknað í 3 km neti en eftir það í 9 km neti. Langtímaspáin er því bæði til gagns en ekki síður til gamans.“

Svona lítur forsíða Bliku út.
Frír vefur og öllum opinn
Einar segir son sinn, Svein Gauta, eiga allan heiður að gerð kerfisins á Bliku. „Hann er verkfræðingur og öflugur forritari. Hann heldur utan um keyrslu líkansins og við erum saman í þessu innan Veðurvaktarinnar ehf. Þróunin hefur tekið allmikinn tíma, en samt minni en reikna mátti með í fyrstu.“ Í fyllingu tímans sé stefnt að því að auglýsingar á síðunni greiði upp í kostnað, en vefurinn verði frír og öllum opinn. Blika.is er fyrst og fremst viðbót í flóru af veðurspásíðum. Eingöngu eru birtar spár fyrir einstaka staði hér á landi og reynt eftir föngum að inntaksgögn og reikniaðferðin gefi sem nákvæmasta niðurstöðu. Ný spá er reiknuð á 6 klst fresti með öflugri tölvu. Blika.is mun t.d. ekki sýna spár með veðurkortum og heldur ekki mælingar eða veðurathuganir sem Veðurstofa Íslands birtir af metnaði á sínum síðum,“ segir Einar.
Mynd: OBÞ