
Guðmundur Elíasson, umhverfis- og veitustjóri
Hafnarfjarðarbæjar.
Að undanförnu hefur verið mikið um rekstrartruflanir í fráveitukerfi Hafnarfjarðar og má rekja ansi margar þeirra til þess að blautþurrkum er sturtað niður í salerni eftir notkun. Blautþurrkur, sem gerðar eru úr plasti, festast í dælum og felst mikill kostnaður í viðhaldi og hreinsun á þeim.
Ef allir íbúar og starfsmenn fyrirtækja í Hafnarfirði taka sig saman þá er hægt að minnka magn óæskilegra hluta/efna sem berast í fráveituna umtalsvert og jafnvel koma alfarið í veg fyrir vandamálið til lengri tíma litið. „En til þess þarf samhent átak, vitund og vilja allra“ segir Guðmundur Elíasson, umhverfis- og veitustjóri Hafnarfjarðarbæjar. Blautþurrkur í einhverjum tilfellum auglýstar þannig að það sé í lagi að sturta þeim niður eftir notkun sem er langt frá því að vera rétt. Þessar þurrkur stífla lagnir og í mörgum tilfellum hafa lagnir við heimili stíflast með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir húseigendur. „Blautþurrkur eru þó ekki einu aðskotahlutirnir í fráveitukerfum sem eru að valda vandamálum heldur einnig t.a.m. eldhúsbréf, trefjaklútar, smokkar, dömubindi, tíðatappar og eyrnapinnar. Klósettið er EKKI ruslatunna og það eina sem á að fara í klósettið er klósettpappír. Annað rusl ber að flokka í þar til gerðar tunnur“ segir Guðmundur. „Í þessum efnum eru okkur allir vegir færir, það þurfa bara allir íbúar og starfmenn fyrirtækja í Hafnarfirði að taka þátt“ segir Guðmundur að lokum.

Stífluð dæla við Klukkuvelli. Mynd aðsend.
Aðsendar myndir.