Í október síðastliðnum kynnti Apple síðan M1 Pro og M1 Max sem samanstanda af 6 eða 8 Firestorm kjarna og tveimur Icestorm kjörnum. Í lok október kynnti Intel síðan Alder Lake fjölskylduna sem tólftu kynslóð Intel Core örgjörva og notast við öfluga Golden Cove kjarna og sparneytna Gracemont kjarna. Bergdís Norðdahl, blaðamaður Hafnfirðings, kynnti sér málin og mun tryggja tækni- og vísindahorn vikulega á vefsíðu Hafnfirðings. 

Af vefsíðu Apple þegar nýungin var kynnt.

Segja má að bylting hafi verið í þróun tölvu örgjörva undanfarin ár. Hingað til hafa þeir verið byggðir upp af hópi jafnstórra kjarna en nú er farið að blanda saman stórum og sterkum kjörnum og litlum og sparneytnum kjörnum, sem þó eru vel megnugir sjálfir. Helst var þessa blöndu aðeins að finna í snjallsímum en fyrir um réttu ári breyttist það þegar Apple hætti að nota Intel örgjörva í sínar borð- og fartölvur og fór að búa til sína eigin örgjörva sem þeir kalla M1. 

Örgjörvi. Af vefsíðu Apple.

Apple M1 inniheldur fjóra öfluga “Firestorm” kjarna og fjóra sparneytna “Icestorm” kjarna sem sagðir nota einn tíunda af orku á við stóru Firestorm kjarnana. M1 á þó það sameiginlegt með snjallsíma örgjörvunum sem er að þeir eru byggðir á ARM arkitektúrnum en ekki x86 eins og Intel og AMD nota.

Örgjörvi er eins og heili tölvunnar, pínulítill kubbur sér um að túlka og framkvæma flestar skipanir frá öllum vélbúnaði og hugbúnaði. Finna má örgjörva í flestum raftækjum nú til dags og einnig í bílum.

Forsíðumynd og umfjöllun/Bergdís Norðdahl