Framundan eru Bjartir dagar í Hafnarfirði, pakkaðir af fjölbreyttum viðburðum sem stofnanir bæjarins, íþróttafélög, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa fyrir. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og unglinga enda er Sumardagurinn fyrsti hluti af hátíðarhöldunum.

3. bekkingar grunnskólanna í Hafnafirði syngja inn sumarið að vanda.

Ýmsir tónlistarviðburðir skipa stóran sess í dagskrá Bjartra daga í ár með tónlistarhátíðina HEIMA í broddi fylkingar og á föstudagskvöld verða söfn, verslanir og vinnustofur listamanna opnar fram á kvöld. Þá standa tónlistarmenn, íþróttafélög og ýmis félagasamtök að fjölbreyttum viðburðum og menningarstofnanir bæjarins bjóða uppá skemmtilega dagskrá. Hátíðin hefst á því að þriðjubekkingar syngja inn sumarið á Thorsplani síðasta vetrardag, bæjarlistamaður Hafnarfjarðar verður útnefndur ásamt því að Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar veitir styrki til viðburða og menningarstarfsemi.

JóiPé og Króli tóku þátt í HEIMA árið 2018.

HEIMA í sjötta sinn

Tónlistarhátíðin HEIMA fer nú fram í sjötta sinn og hefur hátíðin sannarlega fest sig í sessi sem skemmtileg tónlistarhátíð sem býður upp á öðruvísi upplifun og meiri nánd en tónleikagestir sem og listamenn eiga að venjast. Fjölskyldur munu sem fyrr opna heimili sín í miðbæ Hafnarfjarðar og í hverju húsi spila tveir mismunandi listamenn eða hljómsveitir. Fríkirkjan í Hafnarfirði mun einnig opna dyr sínar fyrir HEIMA-fólki auk þess sem sviðið í Bæjarbíói verður notað sem bætir enn á fjölbreytileikann. Listamennirnir í ár eru þrettán og allir koma fram tvisvar í sitthvoru HEIMA-húsinu í miðbænum.

Björgvin Halldórsson var bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2018.

Hver verður bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2019?

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2019 verður tilkynntur við hátíðlega athöfn í Hafnarborg kl. 17 síðasta vetrardag. Í fyrra var það enginn annar en Björgvin Halldórsson sem hlaut nafnbótina. Sumrinu verður svo fagnað fjölbreyttum hátíðarhöldum um allan Hafnarfjörð á Sumardaginn fyrsta með víðavangshlaupi, menningargöngu um Setbergið, hádegistónleikum, opnu húsi hjá m.a. Brettafélagi Hafnarfjarðar og Siglingaklúbbnum, skátamessu, skrúðgöngu og fjölbreyttri fjölskyldudagskrá á Thorsplani.

Kraftur og gróska í listalífinu í Hafnarfirði hefur meðal annars endurspeglast í viðburðinum Gakktu í bæinn, á föstudagskvöldi á öðrum degi sumars, þegar listamenn, hönnuðir og handverksfólk á svæðinu frá smábátahöfninni að miðbæ Hafnarfjarðar opna vinnustofur sínar og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn. Þá verða verslanir í miðbænum opnar fram á kvöld og tilvalið að versla einstaka hönnun í hjarta Hafnarfjarðar.

Velkomin til Hafnarfjarðar á fyrstu bæjarhátíð sumarsins! Hér má nálgast viðburðina: