Fimleikastúlkurnar Guðrún Edda, Embla, Ísabella og Ragnheiður Jenný úr Fimleikafélaginu Björk halda til Houston Texas nú í febrúar til þess að keppa á alþjóðlega fimleikamótinu Simone Biles Invitational.

Simone Biles er, eins og flestum er kunnugt, ein fremsta íþróttakona heims og hefur verið ósigrandi í fimleikum síðan árið 2013. Hún er fimmfaldur heimsmeistari, Ólympíumeistari 2016 og allt bendir til að hún muni verja titil sinn á Ólympíuleikunum í Tokyo í sumar. Biles stendur fyrir boðsmótinu Simone Biles Invitational í fimleikaklúbbnum World Champion Center í Houston, Texas, þar sem hún stundar æfingar sínar. Þangað munu stúlkurnar úr Björk halda til að keppa.

Simone Biles. Mynd/Wikipedia

Bjarkarstúlkurnar æfa allar með meistarahópi Fimleikafélagsins Björk og eru jafnframt allar í úrvalshóp Fimleikasambands Íslands. Þær Guðrún Edda og Embla hafa keppt í unglingaflokki fyrir Íslands hönd síðastliðin ár en eru nú komnar í fullorðinsflokk. Þær Ragnheiður Jenný og Ísabella eru ungar og upprennandi, nýkomnar í unglingaflokk og voru valdar í úrvalshóp FSÍ á þessu ári. Þær stefna báðar á að komast í landslið Íslands fyrir Norðurlandamót. Allar hafa stelpurnar verið í fremstu röð í sínum aldurslokki og unnið til fjölda verðlauna.

Mynd aðsend.