Lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson var fyrr í kvöld að taka nokkrar drónamyndir í nágrenni Hamarskotslækjar í miðbæ Hafnarfjarðar, þegar hann var merktur í færslu í hafnfirskum fuglavinahópi. Sést hafði til álftarunga sem virtist vængbrotinn.

Mynd sem birt var í fuglavinahópnum. Guðmundur var merktur í þræðinum við myndina.

Guðmundur, ávallt viðbúinn sem fyrr, svaraði kallinu og fór þangað sem myndir höfðu verið teknar af unganum við Tjarnarbraut. Í stuttu spjalli við Hafnfirðing sagði Guðmundur að hann hefði þurft að beita örlitlum klækjum til að lokka ungann til sín. „Hann var úti í læk þegar ég kom og ég náði honum upp á land. Ég var mest hissa á því að enginn í fjölskyldunni hans réðist á mig þegar ég tók hann upp. Álftirnar kvörtuðu bara – og fengu reyndar gæsirnar hinum megin við bakkann til að kvarta líka…með hávaða!“

Áhyggjufull fjölskylda og meintir mögulegir vinir álftarungans við bakka lækjarins. Mynd/Guðmundur

Guðmundur setti ungann aftur í í bílnum sínum og vafði hann inn í teppi og ók af stað sem leið lá upp í Kjós, þar sem annar hjartahlýr meðlimur fyrrgreinds fuglavinahóps bauðst til að skóta yfir ungann skjólshúsi í nótt. Á leiðinni í bílnum var vængbrotinn unginn ekki á þeim buxnum að hangsa undir teppi, heldur teygði úr sér og vildi sjá út um gluggann. „Hann hristi bara teppið af sér og ég átti í fullu fangi um tíma með að einbeita mér að akstrinum, svo mikið var bröltið,“ segir Guðmundur.

Unginn kominn undir teppið í bílnum sem hann hristi svo af sér. Mynd/Guðmundur.

Ferðin gekk þó á endanum vel og unginn dvelur í góðu yfirlæti í Kjós. Á morgun mun dýralæknir meta heilsu hans og örlög.

Það væsir ekki um okkar mann (fugl) í Kjósinni. Mynd/Guðmundur