Innan skamms kemur út fyrsta einleiksplata Guðmundar Sigurðssonar, organista Hafnarfjarðarkirkju. Platan ber nafnið Haf og á henni leikur Guðmundur á bæði orgel Hafnarfjarðarkirkju. Kirkjan gefur plötuna út á 10 ára afmæli orgelanna og Guðmundur mun fylgja útgáfunni eftir með tónleikaferðalagi um landið og einnig eitthvað á erlendri grundu.

Síðastliðið haust opnaðist á þann möguleika að organistinn Guðmundur kæmist sex mánaða tónleikahald og spilamennsku vegna útgáfu plötunnar, vegna 10 ára afmælis orgelanna í kirkjunni. „Þetta gerðist mjög hratt fyrir jólin í fyrra og sóknarnefndin að var svo elskuleg að veita mér þetta leyfi frá störfum og hingað kom maður sem leysir mig af, alveg frábær. Og fyrir skömmu fékk ég að vita að mér væru veitt sex mánaða listamannalaun. Ég er mjög hrærður og þakkátur fyrir þennan heiður og líka kirkjunni minni fyrir að gefa út plötuna,“ segir Guðmundur.

Hafnarfjarðarkirkja – mynd eftir Sigurjón Pétursson, sem prýðir framhlið nýju plötunnar.

Frá Bach til Jóhanns Jóhannssonar
Á þessu sex mánaða tímabili mun Guðmundur einnig hefja undirbúning á annarri plötu. 16. febrúar kynnir hann plötuna og leikur verk af henni á tónleikum í dómkirkjunni í Västerås í Svíþjóð. Platan er gefin út á geisladisk og vínyl og á henni eru 10 verk. „Lengsta verkið er einnig síðasta verkið á plötunni, eftir Huga Guðmundsson tónskáld. Fallegt verk sem heitir Haf, eins og platan. Á plötunni eru einnig verk allt frá Jóhanni Sebastian Bach til Jóhanns Jóhannssonar kvikmyndatónskálds. Það ætti því að vera sitthvað fyrir alla. Friðrik Bjarnason, fyrsti organisti kirkjunnar, á einnig tvö verk á plötunni. Ég reyni að tengja saman söguna og nútímann eins og hægt er.“

Rómantíska orgelið sem keypt var 2009.

Mikill stuðningur við tónlist

Guðmundur hefur verið organisti Hafnarfjarðarkirkju um 12 ára skeið og segist vera afar ánægður með þann stuðning og sess sem tónlist fær í kirkjustarfinu. „Sóknarnefndin og prestarnir eru mér mikið bakland, þessi frábæru orgel sem voru keypt og svo stuðningur við allt kórastarf hér. Barbörukórinn hefur lengi verið öflugur og Helga Loftsdóttir er með frábært barna- og unglingakórastarf sem að mínu mati er eitt hið besta á landinu. Meira að segja í hruninu var lögð áhersla á skera sem minnst niður tónlistina, sem sýnir hvað tónlistin gerir mikið fyrir kirkjustarfið. Fólk streymir inn þegar kórarnir koma fram í messum og tónleikar eru haldnir. Hér er vilji til að halda í góðan arf og klassíkina en einnig vera með nýjungar. Megum ekki vera of háfleyg.“

Barrokk orgelið smíðað í gömlum stíl. Keypt árið 2008.

Rómantíkin uppi – barrokkið niðri
Platan verður einnig heimild um 10 ára sögu orgelanna í kirkjunni. Gamla orgelið frá 1955 var orðið gamalt og laskað og Guðmundur segir að ekki hafi borgað sig að gera við það. „Í staðinn fyrir að smíða eitt blandað orgel vildum við hafa rómantíkina uppi og barrokkið niðri. Við útfarir er orgelið uppi notað en niðri í messum; þá erum við nær fólkinu.“ Honum finnst afar ánægjulegt að hafa fengið að spila í Hafnarfjarðarkirkju fyrir Hafnfirðinga og nærsveitamenn í öll þessi ár. „Ótrúleg aðstaða og forréttindi fyrir organista að vinna. Tvö ólík orgel smíðuð af þeim bestu í bransanum. Besti dótakassinn fyrir organista!“

Myndir af Guðmundi og innan úr kirkjunni/OBÞ.