Kulnun hefur verið áberandi í umræðunni undanfarin misseri og á seinni hluta síðasta árs hratt VIRK starfsendurhæfingarsjóður af stað auglýsingaherferð undir heitinu „Er brjálað að gera?“ 1900 manns fengu aðstoð VIRK í fyrra. Við heyrðum í Hafnfirðingnum Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK, sem segir margar og flóknar ástæður vera fyrir því að fólk fer í þrot.

„Kulnun er ekki sjúkdómsgreining, heldur starfsþrot. Einstaklingar sem kljást við einkenni kulnunar koma til okkar með aðrar greiningar, s.s. kvíða og þunglyndi. Ég get fullyrt að allir sem koma til okkar eru í mjög alvarlegri stöðu og þurfa þjónustu og aðstoð,“ segir Vigdís og leggur áherslu á að vandi fólks sé margþættur. „Áföll í lífinu, erfiðar félagslegar aðstæður eða fjölskylduaðstæður eru oft stór þáttur. Það er ekki einfalt að byggja sig upp eftir að hafa brotlent á þennan hátt. Áður en fólk kemur til okkar er undan gengið heilmikil þar sem farið er yfir umsóknir með upplýsingum frá læknum og sálfræðingum og metið hvort starfsendurhæfing er raunhæf á þessum tímapunkti. Stundum þarf hvíld og ekki mikið af úrræðum. Hluti af endurhæfingunni er að hvíla sig. Einkenni kulnunar svipar mjög til einkenna vefjagigtar, kvíða og þunglyndis.“

Stór hluti háskólamenntað fólk

Spurð um hvort einhverjir séu í meiri hættu en aðrir að fá einkenni kulnunar segir Vigdís að t.d. sé algengara að fólk í líkamlega erfiðum störfum komi með líkamleg vandamál. „En svo er talsverður hluti fólks með háskólamenntun sem kemur hingað inn. Einkenni kulnunar fyrirfinnast þó í meira og minna öllum hópum. Um er að ræða vel gerða og flotta einstakinga sem eru að vinna í sjálfum sér með hjálp okkar. Oft eru þetta bestu starfsmennirnir sem allir yfirmenn vilja hafa. Duglegasta fólkið virðist vera í mestri hættu.“

Vigdís segir að í þau 10 ár sem VIRK hefur verið starfrækt hafi kulnun ekki endilega aukist, en umræðan hafi þó gert það. „Eðlilega speglar fólk sig í því sem er í umræðunni á hverjum tíma. En fólk hefur bara keyrt á vegg eftir að hafa átt erfitt líf og verið undir miklu álagi. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér að fólk sé að brotna undan álagi.“ Samkvæmt ýmsum mælingum hefur VIRK náð góðum árangri með þau sem þangað koma. „Fólk er duglegt að taka þátt í sinni endurhæfingu og langflestir ná mjög góðum árangri. Það lærir líka aðferðir við að takast á við álag í daglegu lífi. Fólk gerir oft svo óraunhæfar kröfur til sjálfs sín og umhverfisins. Við þurfum aðeins að skrúfa þær niður og passa upp á okkur.“

Hér má sjá fræðsluefni á vef VIRK um leiðir til betra jafnvægis.