Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í dag að hafna tillögu skipulags- og byggingaráðs um skipulagsbreytingar vegna Hrauntungu 5. Var sérstaklega tekið fram að höfnunartillagan væri lögð fram í ljósi mótmæla íbúa við Hrauntungu og nærliggjandi svæði á breyttu deiliskipulagi á skýran og táknrænan hátt. Egill Jónsson, íbúi við Hrauntungu 28, og upphafsmaður mótmælanna um liðna helgi, segir þessa ákvörðun í bæjarstjórn ekki bara góða afmælisgjöf heldur hafi umræða á bæjarstjórnarfundinum verið til fyrirmyndar.

Klukkstund af bæjarstjórnarfundi fór í umræðu um Hrauntungu 5. Mynd/skjáskot af vefútsendingunni.

Þetta var fyrsti bæjarstjórnarfundur í Hafnarborg eftir fjarfundafyrirkomulag vegna covid-19. Eftir ákvörðun bæjarstjórnar stendur deiliskipulag fyrir Hrauntungu 5 óbreytt.

Gildandi skipulag er litað rautt.

„Við erum afskaplega þakklát og hér var ekki aðeins flaggað fyrir afmæli mínu heldur fyrir þessum árangri. Bæjarfulltrúar í meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar eiga heiður skilið fyrir að snúa við eigin ákvörðun í dag. Þeir þökkuðu okkur líka fyrir málefnalega og vandaða gagnrýni, sem var fólgin í upplýsingaöflun okkar og smá smíðavinnu. Þetta snýst ekki um útsýnið út um stofugluggann hjá okkur, heldur er okkur annt um bæinn og þetta hefði orðið skipulagsslys. Það hafði náðst sátt um fyrra skipulagið. Það er þokkaleg samstaða um þéttingu byggðar og ég er ekki einn þeirra sem vil ekki hrófla við neinu. Ég vil bara að það sé smekklega gert og falli vel inn í byggðina,“ segir Egill.

Frá byggingavinnunni sl. laugardag. Mynd/OBÞ

Egill segir að umræðan á bæjarstjórnarfundinum hafi verið góð og gagnrýnin og öllum bæjarfulltrúum til sóma. „Þeir komu hingað, hringdu í okkur, tóku myndir og kynntu sér málin nánar. Mættum bara vinsemd og hlýju. Það er engin flokkapólitík í þessu frá mínum bæjardyrum séð. Ég er bara að þessu fyrir bæinn. Auðvitað fara ekki allir þessa leið í að mótmæla en ég var búinn að segja við bæjaryfirvöld að ég myndi gera eitthvað róttækt. Nú verður grillpartý um helgina og við tökum niður gaflinn og grillum hann,“ segir Egill í gamansömum tón. Aðspurður hvort að með því að smíða þennan gafl sé hann orðinn réttnefndur „gaflari“, segir aðkomumaðurinn Egill: „Þetta dugar mér kannski loksins til þess!“

Húsgaflinn sem íbúar reistu um helgina og mótmætu þannig fyrrhuguðum breytingartillögum. Mynd/OBÞ

Hjónin Arnfríður Arnardóttir og Jóhann Óskar Borgþórsson, íbúar við Hrauntungu 18, segjast vera mjög ánægð með að bæjarfulltrúar hafi hlustað á sig og kynnt sér gögnin sem þau fengu í hendur. „Anna Guðný [Eiríksdóttir, íbúi við Hrauntungu 28 og eiginkona Egils] vann mikla og góða samantekt þar sem allar breytingar voru raktar og ég held að það ásamt táknrænum mótmælum með því að reisa húsgaflinn hafi skilað þessari niðurstöðu. Við vonum að þetta mál muni hafi áhrif á vinnubrögð skipulags- og byggingaráðs í framtíðarverkefnum. Það verði ekki raunin að deiliskipulagi sem unnið er í sátt við íbúa sé kollvarpað með einu pennastriki,“ segja Arnfríður og Jóhann og bæta við að Egill sé að þeirra mati réttnefndur „gaflari ársins“.