Veittar voru viðurkenningar um liðna helgi fyrir best skreyttu húsin og best skreyttu götuna í Hafnarfirði. Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir voru í upphafi desembermánaðar hvattir til að setja upp stóru jólagleraugun og senda ábendingu um það hús í Hafnarfirði sem þykir bera af í jólaskreytingunum þetta árið.
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, formaður menningar- og ferðamálanefndar, heimsótti verðlaunahafana um helgina og afhenti íbúum viðurkenningar og tré frá Skógrækt Hafnarfjarðar, en valið var í höndum nefndarinnar.
Austurgata 47 fékk viðurkenningu fyrir bjarta og fallega skreytingu við Lækinn sem gefur Austurgötunni jólalegan blæ.

Furuvellir 19 fékk viðurkenningu fyrir ótrúlega skrautlega og fallega skreytingu þar sem bætt er í á hverju ári. Hér er sannkallaður metnaður á ferð og mest skreytta húsið.

Hellisgata 34 fékk viðurkenningu fyrir að fylla götuna sannri jólagleði því nánast allt er skreytt sem hægt er að skreyta og meira að segja bíllinn, sem stendur í hlaðinu, hefur verið skreyttur.

Hlíðarbraut 5 fékk viðurkenningu fyrir bjarta og fallega skreytingu á fallegu húsi í gömlu hverfi.

Lækjarhvammur 20 fékk viðurkenningu fyrir fallega og líflega skreytingu í Hvömmunum, fulla af litum og gleði

Skipalón 21 fékk viðurkenningu fyrir skemmtilega skreyttan pall við fjölbýlishús sem gleður augað og fangar athygli fólks

Skjólvangur 10 fékk viðurkenningu fyrir smekklega skreytingu í Norðurbænum sem rímar vel við húsið

Suðurgata 9 – The Shed Suðurgata 9 fékk viðurkenningu fyrir framtaksemi í skreytingum. Garðurinn er einstaklega fallega skreyttur og lífgar bæði uppá götuna og eins fyrir þá sem leið eiga leið um fótgangandi. Hér hefur mörgum bæjarbúanum verið boðið til að njóta og upplifa og greinilegt að íbúar hafa mjög gaman að gera fallegt í kringum sig.


Svalbarð 2 fékk viðurkenningu fyrir líflega og hressandi skeytingu. Mikill metnaður í skreytingum hér og mikið úrval af seríum.

Furuvellir 13-25 er best skreytta gatan þriðja árið í röð og fær hinn margrómaða jólaskjöld. Gatan er einstaklega jólaleg og falleg og samstaða greinilega góð hjá íbúum því allir taka þátt í að skreyta.

Hafnarfjarðarbær óskar öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju!