Hafnfirðingarnir Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttakona úr FH og Róbert Ísak Jónsson, sundmaður úr SH, hlutu í dag nafnbótina íþróttamaður og íþróttakonar ársins úr röðum fatlaðara. Í fyrsta sinn í sögu Íþróttasambands fatlaðra eru tveir íþróttamenn sem báðir hljóta nafnbótina íþróttamaður ársins og deilir Róbert Ísak því viðurkenningunni með öðrum afreks-sundmanni, Má Gunnarssyni. Greint var frá kjörinu í fjölmiðlum í kvöld, m.a. á Hvatisport, tímariti Íþróttasambands fatlaðra.

Þetta er fjórða árið í röð sem Bergrún hlýtur nafnbótina en þar með varð hún aðeins önnur íslenskra kvenna til þess að verða valin fjögur ár í röð. Fyrir var það aðeins Kristín Rós Hákonardóttir, einnig sundkona, sem hafði hlotið útnefninguna fjórum sinnum í röð eða oftar. Bergrún hefur síðustu tvö tímabil keppt fyrir FH en nú í lok árs 2021 hefur hún ákveðið að skipta á nýjan leik til ÍR. Bergrún setti tvö ný Íslandsmet í kúluvarpi á árinu og keppti í fyrsta sinn á Paralympics. Hún vann til silfurverðlauna á EM í Póllandi í kúluvarpi þegar hún varpaði kúlunni 8.76 metra og skömmu síðar stórbætti hún Íslandsmetið og það á Paralympics í Tokyo þegar hún hafnaði í 7. sæti eftir að hafa varpað kúlunni 9,57 metra.

Magnað afreksár er að baki hjá Róbert Ísaki Jónssyni og setti hann alls 12 Íslandsmet á árinu. Á Evrópumeistaramótinu í 50m laug í Portúgal vann Róbert Ísak brons í 200m fjórsundi og silfur í 100m flugsundi. Róbert var einnig fulltrúi Íslands á Paralympics í Tokyo þar sem hann keppti í þremur greinum og náði í tvígang í 6. sæti í 200m fjórsundi og 100m flugsundi. Þetta er í annað sinn Róbert hlýtur nafnbótina en það var fyrst árið 2017. 

Mynd/af vefsíðunni Hvatasport.is