Hafnfirski rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut í dag tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, fyrir bókina Langelstur að eilífu. Bergrún kemur að útgáfu fimm bóka í ár.

Þessi mynd er mjög lýsandi fyrir daga Bergrúnar um þessar mundir. Hún les upp úr bókum sínum og áritar þær fyrir unga aðdáendur. Mynd í eigu Bergrúnar.

Þetta er ansi stórt ár hjá Bergrúnu Írisi, því í apríl sl. varð hún fyrsti handhafi nýrra barnabókaverðlauna sem kennd eru við hafnfirska rithöfundinn Guðrúnu Helgadóttur, fyrir handritið Kennarinn sem hvarf.

Fyrr á árinu myndskreytti Bergrún bókina Stórhættulega stafrófið, eftir Ævar Örn Benediktsson og einnig myndskreytti hún bókina Ró, sem kom út fyrir jólin. Einnig skrifaði hún bókina Hauslausi húsvörðurinn , sem nemendur í 7. – 10. bekk grunnskóla lesa.

Hér má sjá viðtal við Bergrúnu í Kilju Egils Helgasonar 13. nóvember sl. Viðtalið hefst á mínútu 39:22.

Bergrún gat ekki verið viðstödd afhendinguna í dag, því að á sama tíma fóru fram tónleikarnir Jólafjör í Hörpu, þar sem Stórsveit Reykjavíkur bauð henni í heimsókn vegna vinsælda og viðurkenninga sem hún hefur notið sem rithöfundur og teiknari. Þar flutti Bergrún nýja jólasögu sem hún samdi sérstaklega fyrir þetta tilefni og til að styðja við flutninginn lék Stórsveitin nýja tónlist og útsetningar eftir Hauk Gröndal. Þeim til fulltingis var söngkonan Ragnheiður Gröndal og Barnakórinn við Tjörnina.