Hafnfirski rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut í kvöld Íslensku bókmenntaverðlaunin í barna- og unglingabókmennta, fyrir bókina Langelsur að eilífu, sem Bókabeitan gefur út. Fyrir árið 2019 hlaut Bergrún fékk einnig Fjöruverðlaunin fyrir bókina Kennarinn sem hvarf og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Verðlaunin í kvöld voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Bergrún Íris í beinni í kvöld. Skjáskot frá RÚV.

Bergrún Íris hefur skrifað 10 bækur um ævina og komið að gerð yfir 50 bóka, ýmist sem teiknari eða rithöfundur. Þá er hún myndhöfundur yfir fjölda bóka. Þá hef ég myndlýst rúmlega 50 bækur fyrir Menntamálastofnun, til dæmis nokkrar heimilisfræðibækur, íslensku-, stærðfræði og lestrarbækur.

Kvöldsagan svar við álagi og hraða nútímans

Í þakkarræðu í kvöld sagði Bergrún Íris meðal annars að hugsi enn með hlýju til sinna uppáhaldsbóka úr æsku. „Hvernig Ronja kenndi mér að sýna kjark og Emil kenndi mér að það væri allt í lagi að gera mistök. En fyrst og fremst man ég hlýjan faðm foreldra minna, mildan róminn og hvernig það hægðist á tímanum um stund.“ Þá segir Bergrún að að hennar manni sé kvöldsagan svar við álagi og hraða nútímans. „Alvarlegar fréttir dynja á okkur á hverjum degi. Kvöldfréttir sýna stríð og skógarelda, snjóflóð og hræðileg slys. Hálftíma síðar eru börnin kysst góða nótt og send í rúmið. En það er mikilvægt að þau sofni með fallegar hugsanir í kollinum.“

Þá segir Bergrún Íris í ræðunni að stundum kvikni hugsanirnar í samhengi við söguþráðinn. Stundum séu það hugsanir sem barnið hefur burðast með og ekki fengið tækifæri til að færa í orð fyrr en það slokknar á áreitinu. „Barnabókin er griðastaður. Hún veitir skjól, huggar, faðmar, kennir og þroskar. Bókin Langelstur að eilífu fjallar um barn sem missir besta vin sinn. Áður hafði ég skrifað tvær bækur um vinina Eyju og Rögnvald þar sem ég fékk lesendur til að þykja vænt um gamla manninn. Í þriðju bókinni þurfti hann að deyja, og ég vissi að það yrði ekki auðveld lesning. Ófá tár hafa runnið hjá lesendum, bæði börnum og þeim sem eldri eru. Flóknar spurningar hafa komið upp á yfirborðið og börn hafa krafið foreldra sína svara um lífið, dauðann og hvað það sé sem taki við. En þó að bókin kalli fram erfiðar tilfinningar skilur hún lesendur eftir sátta, með frið í hjartanu, og að lestri loknum eru börnin enn nánari foreldrum sínum en áður.“

Frá afhendingu Fjöruverðlaunanna 2020. Neðri röð f.v. Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Efri röð f.v. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, formaður félags um Fjöruverðlaunin og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Mynd/Reykjavíkurborg

Bækur Bergrúnar Írisar eru þessar:

Vinur minn vindurinn, Sjáðu mig sumar, Viltu vera vinur minn, Besta bílabókin, Næturdýrin, Langelstur bækurnar (þrjár talsins), Kennarinn sem hvarf og Hauslausi húsvörðurinn.

Myndhöfundur m.a. þessara bóka:

  • Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
  • Stórhættulega stafrófið eftir Ævar Þór Benediktsson
  • Búðarferðin eftir Ósk Ólafsdóttur
  • Freyja og Fróði bækurnar (átta talsins) eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur
  • Síðasti galdrameistarinn eftir Ármann Jakobsson
  • Blávatnsormurinn eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
  • Gerðu eins og ég, Hvati og dýrin eftir Evu Þengilsdóttur
  • Kjaftað um kynlíf eftir Siggu Dögg Arnardóttur
  • Fyrstu þúsund dagarnir eftir Sæunni Kjartansdóttur
  • eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur
  • Amma Óþekka (þrjár talsins) og Afi sterki (tvær talsins) eftir Jenný Kolsöe
  • Daprasta litla stúlka í öllum heiminum eftir Stefán Mána

Viðurkenningar og verðlaun sem Bergrún Íris hefur fengið:

  • Kennarinn sem hvarf hlaut Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, 2019.
  • Langelstur að eilífu, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019.
  • Langelstur í leynifélaginu: tilnefning til Fjöruverðlaunanna, 2018.
  • Langelstur í bekknum: tilnefning til Fjöruverðlaunanna og tilnefning til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í flokknum besta frumsamda barnabókin, 2017.
  • Vorvindar IBBY, viðurkenning fyrir framlag til barnamenningar, 2016.
  • Viltu vera vinur minn?: tilnefning til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í flokknum bestu myndskreytingarnar, 2015.
  • Vinur minn, vindurinn: tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Fjöruverðlaunanna, 2015
Bergrún Íris með bókina sína, Langelstur að eilífur. Mynd/Bergrún Íris.

Framundan eru fjölmörg spennandi verkefni hjá Bergrúnu Írisi. Þessa dagana vinnur hún að kynfræðsluplakötum fyrir Reykjavíkurborg og ritlistarplakötum fyrir Menntamálastofnun. Þá er hún einnig að teikna myndir í bók um litla stúlku sem fær lyfjabrunn. Bókin er ástríðuverkefni Þórunnar Evu Thapa og verður gefin öllum börnum sem þurfa lyfjabrunn. „Ég mun skrifa meira fyrir Menntamálastofnun á árinu og er byrjuð að leggja drög að spennandi bókum fyrir miðstig. Svo kemur auðvitað framhald að Kennaranum sem hvarf. Sú bók verður vonandi ekki minna spennandi. Þá mun ég taka að mér listasmiðjur, ferðast um landið, heimsækja grunnskóla og lesa upp,“ segir Bergrún í stuttu spjalli við Hafnfirðing.

Forsíðumynd/Ólafur Már Svavarsson