Bók bæjarlistamanns Hafnarfjarðar, Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur, Langelstur að eilífu, hlaut í kvöld Vestnorrænu barnabókaverðlaunin. Auk þessa mikla heiðurs hlýtur Bergrún 60 þúsund danskar krónur í verðlaun, eða um 1,3 milljónir íslenskar.

Ásamt bók Bergrúnar Írisar voru tilnefndar bækurnar Loftar tú mær? (Grípur þú mig?), eftir Rakel Helmsdal frá Færeyjum og Orpilissat nunarsuarmi kusanarnersaat (Fallegasta jólatréð í heimi), eftir Juaaka Lyberth frá Grænlandi.

Í Facebook færslu segir Bergrún Íris: „Sit hér með augu full af tárum og hjarta fullt af gleði vegna þessa mikla heiðurs. Eins og fram kemur í bókunum hafði Rögnvaldur aldrei ferðast út fyrir landsteinana. Það gleður mig svo að karlinn sé nú á faraldsfæti, að upplifa heiminn og læra ný tungumál. Qujanakulooq! Hjartaliga takk fyri! Þúsund þakkir!“

Myndin sem fylgir fréttinni er hluti af Facebook færslu Bergrúnar, þar sem hún til gamans hvetur fólk til að giska á hvað þau Eyja og Rögnvaldur eru að segja á myndinni.

Bergrún Íris hefur þegar hlotið fjölmörg verðlaun fyrir þessa sömu bók, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin í barna- og unglingaflokki, eins og Hafnfirðingur fjallaði um í janúar.

Hér er upptaka frá verðlaunaafhendingunni, sem sýnd var í beinni:

Mynd í eigu Bergrúnar Írisar.