Laugardaginn 11. maí kl. 18:00 mun Barbörukórinn halda tónleika í Hafnarfjarðarkirkju. Barbörukórinn hefur undirbúið þessa tónleika með Hilmari Erni Agnarssyni og fengu þau námskeið í austur-evrópskum söngstíl hjá svissneskri kórstýru, Abelía Nordmann, og tyrkneskri söngkonu, Gizem S Simsek. Hilmar Örn er að stjórna hópnum á vormánuðum í fjarveru Guðmundar Sigurðssonar.

Sagan segir að ung stúlka frá Hafnarfirði hafi verið kosin ungfrú Reykjavík og þá voru nú Hafnfirðingar stoltir. Hún heldur á vit ævintýranna og uppgvötar að heimurinn er uppfullur af góðu fólki, ást, umhyggju og gleði. Heimurinn er góður. Hún heldur af stað frá Reykjavík til Englands þar sem hún hittir elskhuga á vordögum. Þaðan fer hún til Wales og svo til Finnlands þar sem hún fær að kynnast myrkrinu en það er þó alltaf ljós í myrkrinu. Í Austur- Evrópu kynnist hún búlgörskum söngkonum sem gaspra og slúðra rétt eins og íslenskar ungmeyjar og frá austrinu fer hún alla leið til Bandaríkjanna þar sem hún hittir sjálfa gyðjuna Dolly Parton, þvílíkt ævintýri. Á endanum ákveður hún að snúa aftur heim því heima er jú alltaf best.

Harpa Arnardóttir leikkona mun leggja kórnum lið og leiða tónleikagesti á vit ævintýranna.

Á tónleikunum verða flutt þjóðlög frá ýmsum löndum og verk eftir, Jón Múla Árnason, Einjuhani Rautavaara, John Tavener og Auði Guðjohnsen.

Aðgangseyrir 3000 og posi á staðnum.

———–

Barbörukórinn er kammerkór, stofnaður vorið 2007 af Guðmundi Sigurðssyni, organista Hafnarfjarðarkirkju, og nokkrum lærðum söngvurum. Kórinn kennir sig við heilaga Barböru en stytta af dýrlingnum fannst árið 1950 við uppgröft í fornri kapellu í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Kórinn kemur reglulega fram við helgihald Hafnarfjarðarkirkju auk tónleikahalds og söngs við útfarir þar og víðar. Barbörukórinn hefur lagt sérstaka áherslu á íslenskan tónlistararf og hefur gefið út geisladiskinn „Syngið Drottni nýjan söng“ þar sem fluttar eru útsetningar Smára Ólasonar á perlum úr íslenska tónlistarararfinum. Diskurinn fékk góðar viðtökur. Sumarið 2015 kom kórinn fram á tónleikum í Marienkirche í Berlín og við messu í Berliner Dom. Við bæði tækifæri var flutt íslensk kirkjutónlist eftir nokkur af fremstu tónskáldum Íslendinga. Haustið 2016 var kórinn valinn sem fulltrúi Íslands á Norrænt kirkjutónlistarmót í Gautaborg þar sem kórinn flutti íslenska kirkjutónlist á tónleikum í Vasa-kirkjunni þar í borg við góðar undirtektir. Í desember 2017 kom kórinn fram í Hörpu á eftirminnilegum tónleikum með hinum heimsþekkta djasspíanista Jan Lundgren og bassaleikaranum Hans Backenroth, þar sem fluttar voru endurreisnarmótettur við spuna Lundgrens. Haustið 2018 flutti kórinn Requiem eftir Tomás Luis de Victoria í Kristkirkju við góðar undirtektir tónleikagesta.

Mynd aðsend.