Tímamótasamingur var undirritaður um miðjan apríl þegar Agla Gosgerð valdi bræðurna í Fjarðarkaupum sem fyrstu útsölumenn Djöflarótar, engiferdrykkjar frá helvíti, utan Reykjavíkur. Sturlaugur Jón Björnsson, gosgerðarmeistari Öglu, tekur sérstaklega fram að alls ekki sé leyfilegt að þamba drykkinn þótt frískandi sé.

„Við erum gríðarlega sáttir og mikil ánægja sem fylgir því að veita þessari stórverslun umboð til sölu. Mikill sómi er af starfsemi Fjarðarkaupa og hafa þeir bræður bæði sýnt háttvísi og elju með kaupmennsku sinni undanfarin ár sem eru gildi okkur að skapi. Við hlökkum til að skála við Hafnfirðinga í Djöflarót á komandi misserum í firðinum fagra,” segir Sturlaugur. Djöflarót hefur hingað til fengist í Melabúðinni, Versluninni Rangá og nýverið bættist Pétursbúð í Reykjavík við. Til gamans má geta að þegar meðfylgjandi mynd af Gísla Sigurbergssyni, framkvæmdastjóra Fjarðarkaupa og Sturlaugi var tekin, kom að viðskiptavinur, kona á besta aldri, sem lýsti yfir mikilli ánægju sinni með að Djöflarótin væri komin í Fjarðarkaup. Hún hafði smakkað hana í Melabúðinni. „Varan er komin í Fjarðarkaup og við eigum von á því að Hafnfirðingar og nærsveitungar taki henni vel,“ segir Gísli sáttur.

Kjarngott gamalt íslenskt orð
Aðspurður segist Sturlaugur hafa búið til og þróað gosdrykki til heimabrúks í yfir áratug. „Það hefur því lengi blundað í manni að reyna við framleiðslu á aðeins stærri skala en í eldhúsinu og kanna hvort fólk hafi áhuga á þessu. Djöflarótin, sem er kjarngott og gamalt íslenskt orð yfir engifer, er einmitt byggð á gamalli uppskrift að heiman og inniheldur eingöngu hágæða náttúruleg hráefni. Það hefur orðið mikil vitundarvakning undanfarin ár varðandi hráefni, gæði þeirra og gagnsæi í framleiðslu neysluvara. Ég tel það ekki síst vegna þessa sem Djöflarótin fær svona góðar viðtökur. Uppskriftin er einföld; Engifer, sítrónur, íslenskt vatn og sykur, og engin gerviefni eða vitleysa. Svo léttgerja ég þetta í stutta stund til að rúnna af og samþætta bragðeinkennin.”

Hágæðagos úr gæða hráefnum
Fyrir um 2 árum bar Agla Gosgerð vinnuheitið „Gosgerð Reykjavíkur og nágrennis“, eða GRON, og prófaðar voru uppskriftir í litlum brugggræjum. Í september sl. varð til tilraunalögun af Djöflarót í flöskur og á kúta og í framhaldi hófst kynningar- og markaðsstarf og viðtökurnar urðu framar björtustu vonum. „Markmiðið er að færa íslendingum hágæða gos úr gæða hráefnum sem framleitt er af blússandi ástríðu og metnaði. Við erum að þróa ýmsar uppskriftir sem eru allt frá framsæknum nýbylgjustefnum yfir í eldri gostýpur sem ekki hafa sést hér á landi svo áratugum skiptir en einhverjir muna eftir frá miðri síðustu öld. Næsta vara ber nafnið Yuzulaði og er einhverskonar límonaði sem unnið er með japönskum sítrusávexti sem nefnist Yuzu. Við náum vonandi að koma þessu í flöskur á næstu vikum.“
Myndir/OBÞ
Þetta er kynning