Hafnfirðingar þekkja langflestir Austurgötuhátíðina sem haldin er árlega 17. júní. Eins og með aðrar stærri samkomur fellur hún niður í ár, en til stóð að halda upp á 10 ára afmæli hennar með pompi og prakt. Meðal upphafsmanna þeirrar hátíðar eru hjónin Svavar G. Jónsson og Natthawat Voramool, en þeir búa við Austurgötu 30. Færri vita að Austurgötuhátíðin markaði einnig upphaf þess að veitingastaður þeirra, Ban Kúnn við Tjarnarvelli, var opnaður árið 2014. Hafnfirðingur ræddi við Svavar.

„Mín fyrsta minning tengd Austurgötuhátíðinni var þegar Rakel, sem bjó í húsi nr. 25, arkaði á kafi í snjó með barnavagn og hund og bar út miða í öll hús við götuna til að hvetja íbúana til að halda sameiginlega hátíð. Í kjölfarið var boðaður fundur og ákveðið að gera eitthvað skemmtilegt og þeir sem vildu taka þátt myndu gera það á sinn hátt. Það var strax lagt upp með að hún yrði 17. júní,“ rifjar Svavar upp. Aðstandendur hátíðarinnar sannfærðu Hafnarfjarðarbæ um að skrúðgangan með lúðrasveitinni færi einnig Austurgötuna og þannig var það í tvö ár.











Viðtökur framar öllum vonum
Svavar og Natthawat keyptu húsið við Austurgötu árið 2008 og fluttu inn í það þremur árum síðar. Þegar ákveðið var að halda fyrstu Austurgötuhátíðina vildi Natthawat strax að þeirra hlutverk yrði að bjóða upp á taílenskan mat, núðlur og panang, enda hafði fjölskylda Natthawats rekið veitingastað í Taílandi í nokkrar kynslóðir. „Hann fór og keypti helling af hráefni. Það urðu samt 6 ferðir í búð til að kaupa meira kjöt og grænmeti og fólk var sent til að kaupa fleiri diska og gaffla því allt kláraðist. Við elduðum inni og settum upp tjald úti því það fór að rigna. Við hættum svo að selja þegar sérkryddin voru búin,“ segir Svavar. Ári seinna ætluðu þeir aldeilis að vera öruggir og keyptu meira hráefni, en allt fór á sama veg og þurfti að skjótast og kaupa meira. „Þá sagði fólk við okkur að það væri búið að hlakka til allt árið með að gæða sér á matnum okkar og spurði hvort við værum ekki með veitingahús.



„Forsetinn er mættur!“
Eftir þriðju Austurgötuhátíðina 2013, og mikla hvatningu, viðurkenndu Svavar og Natthawat að það væri bara komið að því að stofna veitingastað. „Það tók alveg eitt og hálft ár að finna hentugt húsnæði, þar til við fengum ábendingu um Tjarnarvelli 15,“ segir Svavar og viðurkennir að hann hafi aldrei verið jafn blankur og þegar þeir opnuðu Ban Kúnn. „Þá var ég búinn að vera atvinnulaus í 3 ár. Við áttum íbúð í Reykjavík og vorum að gera upp húsið við Austurgötu. Við áttum 10 vatnsglös þegar við opnuðum sem voru vöskuð upp jafn óðum. Ég hélt upp á 60 ára afmæli mitt á veitingastaðnum í nóvember 2013 og í desember var allt orðið klárt fyrir opnun, allir búnir að gera úttekt en rekstrarleyfið ekki komið. Ég hringdi í elskulegan fulltrúa sýslumannsins í Hafnarfirði og tilkynnti að 31. janúar myndi ég opna klukkan 11, án leyfis eða ekki og stóð við það.“



Nokkrum mínútum eftir opnun komu kona og maður inn og konan segir: „Forsetinn er mættur!“ Svavar segist hafa orðið hissa því hann sá hvergi Ólaf Ragnar Grímsson. „Svo pantaði fólkið mat og settist niður. Eftir smá stund segir maðurinn nafn konunnar og þá átta ég mig á að um var að ræða forseta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Margréti Gauju Magnúsdóttur. Hún var sem sagt fyrsti viðskiptavinurinn. Við höfum mikið hlegið að þessu saman síðan. Hún sagði frá opnuninni á Facebook og það fylltist allt hér í kjölfarið.“



Afdrifarík Íslandsför fyrir 16 árum
Svavar segir að þeir hjónin séu miklir skrautfuglar og Nattawat sé aðal hönnuður veitingastaðarins og hver hlutur valinn af kostgæfni og hafi djúpa merkingu. „Natthawat er hörkuduglegur. Menntaður kennari, viðskiptafræðingur og starfaði bæði lengi vel sem matreiðslumaður og í banka í Taílandi. Hann freistaði gæfunnar og kom til Íslands fyrir 16 árum með eina ferðatösku. Við kynntumst nokkrum mánuðum síðar og höfum verið saman síðan.“ Starfsferill Svavars spannar bæði löggæslu og öryggisgæslu og var í umferðadeild í löggunni. „Ég var þjónustustjóri hjá öryggisgæslunni og prófdómari í ökuprófum en leiðist að keyra ökutæki,“ segir hann og hlær.


Umgengni til fyrirmyndar
Talið berst aftur að Austurgötuhátíðinni, þar sem allt byrjaði, og Svavar tekur sérstaklega fram að það sé áberandi hversu vel er alltaf gengið um. „Ég held að það sé vegna þess að fólk er að heimsækja íbúana við götuna. Hátíðin er persónulegri fyrir vikið og virðing borin fyrir eigum fólks.“ Það fer ekki á milli mála að Svavar er félagsvera og hann ljómar við að tala um gestina og viðskiptavinina sem hann bæði hittir á Austurgötuhátíðinni og á Ban Kúnn. „Það gefur þessu öllu gildi. Að hitta fólk og spjalla við það. Ég reyni að gera eins mikið af því og ég get, enda byggir svona rekstur svo mikið á viðveru okkar eigendanna. Við viljum ekki fjölga stöðunum og okkur líður vel hér.“

Þessi umfjöllun er kynning.