Hjá Hafnarfjarðarbær hefur verið lagt kapp á, frá upphafi Covid19, að tryggja að ekki komi til skerðingar á samfélagslega mikilvægri þjónustu og þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum stigum almannavarna. Guðrún Þorsteinsdóttir, mannauðsstjóri Hafnarfjarðarbæjar segir að það hafi að mestu tekist með útsjónarsemi og hugmyndaauðgi stjórnenda og starfsfólks á hverri starfsstöð fyrir sig og með samstilltu átaki alls starfsfólks sem skráð hafi sig í bakvarðahóp Hafnarfjarðarbæjar. Við ræddum við Guðrúnu og Lísu Margréti Óskarsdóttur, flugnema og starfsmann Ásvallalaugar, sem leysti af á leikskóla, því söfn og sundlaugar eru lokuð vegna covid.   

Þegar fyrsta covid bylgjan geisaði hér á landi var samþykkt á Alþingi nýtt lagaákvæði um almannavarnir, þess efnis að það sé borgaraleg skylda opinberra starfsmanna að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Þannig er t.d. Hafnarfjarðarbæ heimilt að fela starfsfólki breyttar starfsskyldur og að flytja þá tímabundið milli starfsstöðva til að sinna verkefnum sem hafa forgang. Bærinn þurfti ekki að nýta sér þetta ákvæði í fyrstu bylgjunni, en þegar þriðja bylgjan skall á í haust var ákvæðið virkjað á ný og voru fyrstu bakverðirnir kallaðir út nú á haustmánuðum. 

Á meðan sundlaugar eru lokaðar, þá gefst starfsfólki þess tækifæri til að prófa annan vettvang. Mynd/Eva Ágústa

50 manns gáfu kost á sér í vor

„Þegar við opnuðum fyrir skráningar í bakvarðahópinn í vor brást fólk hratt við og fannst það renna blóðið til skyldunnar með að bjóða sig fram og gáfu 50 manns kost á sér.“ Guðrún tekur fram að blessunarlega hafi bærinn svo ekki þurft á þeirri aðstoð að halda. „Við erum búin að vera nokkuð heppin. Í vor og sumar gekk allt vel og svo í haust fór allt af stað aftur. Vegna veikinda eða sóttkvíar starfsfólks þá höfum við þurft að kalla til annað starfsfólk og þá oft með stuttum fyrirvara. Þannig höfum við sloppið við að loka heilu eða hálfu skólunum þótt smit hafi komið upp. Stóri munurinn nú og þá er að núna eru allir leik- og grunnskólar opnir, en hólfaðir af eins og í vor. Það þýðir þá einnig að færri eru á lausu í bakvarðahópnum. Einungis söfn og sundlaugar eru lokuð.“

Leikskólabörn njóta góðs af bakvarðasveitinni. Mynd frá Hraunvallaleikskóla.

Starfsmenn sundlauga fóru til starfa á leikskóla

Hún segir að sett hafi verið upp skipulag fyrir skráningu í bakvarðahóp og tímabundna pörun í önnur störf og þannig passað t.d. upp á mikilvæga þætti eins og þekkingu, reynslu, heilsufar og hæfni fólks til að geta sinnt öðrum störfum. „Fjórir starfsmenn Suðurbæjarlaugar og einn frá Ásvallalaug fóru t.a.m. tímabundið til starfa á leikskóla,“ segir Guðrún og tekur fram að starfsfólk hafi svo gríðarlega fjölbreytta reynslu, hvað þá á 2200 manna vinnustað eins og Hafnarfjarðarbær er. „Við byggðum fyrst og fremst upp bakvarðahóp fyrir velferðarþjónustu sem við nýtum líka fyrir fræðsluþjónustuna. Stjórnendur og allt starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið gríðarlega vinnu við skipulagningu allra sinna verkefna til að láta hlutina ganga upp og sýnt aðstæðum mikinn skilning og á sama tíma mikla samfélagslega ábyrgð”. 

Hellingur af knúsi og fótbolti í andlitið Lísa Margrét er fædd árið 2000 og hefur starfað um tíma með námi í Ásvallalaug. Hún var kölluð til leikskólans Vesturkots vegna veikinda starfsfólks þar. Hún segist hafa áður haft dálitla reynslu af því að vinna með börnum þegar hún sá um skátanámskeið á vegum Hafnarfjarðarbæjar. „Ég var búin að vera heima í viku þegar verkstjórinn minn hafði samband og hvatti mig til að skrá mig í bakvarðahópinn. Það var mjög kærkomið þegar kallið kom og gott að geta lagt sitt af mörkum og nýtt krafta sína á þennan hátt.“ Lísa Margrét kláraði bóklegt flugnám frá Flugskóla Íslands (sem sameinaðist Keili) í júní sl., en verklega námið tekur svo hvern og einn nemanda misjafnlega langan tíma í framhaldinu. „Tímasetningin hentaði vel. Ég fór dálítið út í djúpu laugina í starfinu á leikskólanum en það var samt líkt því sem ég hafði ímyndað mér. Fyrsta daginn fékk ég helling af knúsi og líka fótbolta í andlitið,“ segir hún og hlær. Hún bætir við að lokum að hún sé opin fyrir því að vera kölluð á aðra starfsstöð ef þörf er á og hvetur aðra til þess að skrá sig í bakvarðahópinn, enda um að ræða kjörið tækifæri til að bæta upplifun og þekkingu í reynslubankann og kynnast öðrum störfum innan sveitarfélagsins.”

Forsíðumynd/OBÞ

ÞESSI UMFJÖLLUN ER SAMSTARF