Aðalskoðun var stofnuð fyrir 25 árum hér í bæ og er með aðsetur við Hjallahraun 4. Jafnframt eru reknar fjórar aðrar skoðunarstöðvar á landinu, auk þriggja fljótandi stöðva og einnar færanlegrar sem nýlega bættist í þjónustuna. Um 35-40 manns starfa hjá Aðalskoðun og mikilvæg skref voru tekin á þessu ári í að gera fyrirtækið fjölskylduvænna, með styttri opnunartíma og framundan eru einnig stór skref í umhverfismálum. Við kíktum í heimsókn.

Fyrsta skrefið í styttingu vinnuviku starfsfólks Aðalskoðunar var tekið í maí, þegar opnunartími var styttur úr 8 -17 í 8-16. Um síðastliðin mánaðamót var svo opnunartíma breytt á sama hátt alla virka daga. „Þetta er í anda þess sem er að gerast í samfélaginu, t.d. hjá Skattinum, Samgöngustofu og fleirum. Ég vildi breyta landslaginu og fara meira út í að gera fyrirtækið fjölskylduvænna. Það lá því beinast við að stytta vinnuvikuna en láta starfsfólkið halda sömu kjörum. Því er í raun um heilmikla launahækkun að ræða í leiðinni,“ segir framkvæmdastjórinn Ómar Þorgils Pálmason og bætir við að hann voni að fleiri vinnustaðir fylgir í kjölfarið.




Færanleg skoðunarstöð á bílaplani fyrirtækja
Ómar segist gera sér grein fyrir að með þessu finnist einhverjum mögulega að verið sé að taka of stór skref í einu. „Þetta er til bóta fyrir samfélagið, að sjálfsögðu! Starfánægja hefur aukist hjá okkur og svona skref eru fyrirtækjum til framdráttar. Með þessu fylgir líka hvatning til viðskiptavina um að vera ekki á síðustu stundu með að koma með bílana í skoðun.“ Þjónustustigið hjá Aðalskoðun hafi nefnilega á sama tíma verið bætt með kaupum á glænýrri færanlegri skoðunarstöð, þeirri fyrstu í Hafnarfirði. „Með henni getum við komið okkur fyrir á bílastæðum hjá stærri fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem starfsfólk getur látið skoða bílana sína á vinnutíma á auðveldan hátt, án þess að gera sér ferð til þess.“
Ómar er óhræddur við að breyta hefðum. „Góðar breytingar taka alltaf tíma og ég vona að fólk taki vel í þetta, sjái tækifærin og sýni þessu skilning. Þetta er til hagsbóta fyrir umhverfið og kolefnissporið og mikilvægur tímasparnaður fyrir fólk og fyrirtæki sem nýta sér þjónustuna. Við ætlum líka að verða eins græn og umhverfisvæn og mögulegt er í þessum rekstri. Við ætlum t.a.m. að verða pappírslaus um áramótin. Mörg góð skref á stuttum tíma,“ segir hann stoltur.
Þessi umfjöllun er kynning.