Þegar Almar Grímsson var fimmtugur var ekkert langlífi í kortunum hjá honum. Hann var að brenna út, stressaður, vinnandi tvö krefjandi störf og hafði auk þess tekið að sér alls konar ábyrgð í félagsstarfi. Viðhorf hans var einfaldlega að hann gæti nánast allt og það kitlaði hégómagirndina að vera í mikilli eftirspurn. Eftir að hafa reynt ýmislegt til að bæta lífsstílinn urðu straumhvörf í lífi Almars þegar hann gekk til liðs við þá fjölmörgu eldri borgara sem nýttu sér heilsueflingu Janusar Guðlaugssonar í febrúar í fyrra. Við kíktum í heimsókn til Almars og eiginkonu hans, Önnu Bjarkar Guðbjörnsdóttur, við Herjólfsgötu.

Þegar Almar var nýorðinn fimmtugur árið 1992 „brotlenti“ hann, eins og hann orðar það sjálfur, og varð óvinnufær um hálfs árs skeið. Honum fannst erfitt og ósanngjarnt að hann skyldi „lenda í þessu“, maðurinn sem sjálfur starfaði í heilbrigðisgeiranum. „Í dag er alvitað að þetta er samfélagsmein, hvort sem við köllum það kulnun eða að brenna út og verðum að taka mjög alvarlega. Ég varð á þessum tíma að taka til hjá mér, m.a. að minnka við mig starf og hætta að neyta áfengis. Þetta var erfitt því að ég var svo ómissandi, að eigin mati sérstaklega,“ segir Almar, sem byrjaði á að huga að líkamlegu ástandi og varð býsna öflugur við að strengja áramótaheit og mæta í líkamsræktarstöðvar. Mætingin fjaraði þó fljótt út en hann var sáttur við að komast nokkurn veginn við góða heilsu að sextugu.

Almar fyrir miðju ásamt starfsfólki Hafnarfjarðar Apóteks í sínum tíma. Mynd úr Fjarðarpóstinum á Tímarit.is.

Heilsan vék fyrir metnaðinum

Almar hefur víða komið við og verið áberandi, s.s. sem eigandi Apóteks Hafnarfjarðar, í bæjarpólitíkinni og sem fyrsti lyfjafræðingurinn sem var formaður Krabbameinsfélags Íslands. „Ég fékk Fálkaorðuna árið 1990 frá Vígdísi Finnbogadóttur, þáverandi forseta Íslands og verndara félagsins. Ég var aðeins 48 ára og hafði verið í stjórn Krabbameinsfélagsins frá 1984, þegar húsnæði félagsins var byggt fyrir söfnunarfé úr þjóðarátaki. Árið 1988 varð ég formaður þess og leiddi nýtt þjóðarátak 1990 þegar stofnuð var rannsóknarstofna og heimahlynning.“ Á þessum tíma var Almar komin með einkenni þess að vera að brenna út. Hann var enn að taka að sér verkefni fyrir Alþjóða heilbrigðismálastofnunina þar sem hann hafði starfað um nokkurra ára skeið. Að sögn Almars vék fjölskyldan hans aðeins fyrir metnaðinum. „Ég hef komist áfram á eigin verðleikum og forsendum. Hlutirnir hafa alltaf einhver veginn komið upp í hendurnar á mér. Ég sagði bara ekki nógu oft nei.“

Mynd af Almari í kanadískum fjölmiðli þar sem hann var í skrúðgöngu í Gimli.

Almar segir að þegar hann varð að minnka við sig vinnu og setja sjálfan sig á eftirlaun hafi stórt áhugamál hans, hið 80 ára gamla Þjóðræknisfélag Íslendinga, veitt honum þá gleði og lífsfyllingu sem hann þurfti í staðinn. „Þetta er félag sem vinnur að því að efla tengsl Íslendinga og Vestur-Íslendinga og mér þykir vænst um að ég tók þátt í að stofna Snorraverkefnið, fyrir ungt fólk af íslenskum ættum, sem kemur í sex vikur til að kynnast landi forfeðranna. Frá 1998 er ég búinn að fara fjölmargar ferðir vestur og kynnst sögu íslensku vesturfaranna, fundið mörg skyldmenni og eignast marga nána vini. Íslendinganýlendurnar dreifast víða um Bandaríkin og Kanada. Þetta er orðin eins og ný fjölskylda mín og þau skipa t.d. meira en helming vina minna á Facebook. Þessi tuttugu ár sem ég hef verið á kafi í þessu hafa skapað nýja vídd í lífi mínu.“

Þyngdin fór í þriggja stafa tölu

Eftir sextugt fór Almar að bæta á sig kílóum og minnka hreyfingu. Líðanin einkenndist af ofkeyrslu og engin lyf hjálpuðu. „Ég hélt að ég væri þunglyndur og veikur á geði sem var svo ekkert raunin þegar bataferlið hófst fyrir alvöru.“ Einn góðan veðurdag hringdu háværar bjöllur innra með honum þegar þyngdin var komin í þriggja stafa tölu. „Ég gerði samt lítið í því annað en að forðast að fara á vigtina! Árin 2003 og 2010, á sjötugsaldrinum, lenti ég í svo tvisvar í slæmum bílslysum og slapp útrúlega lítið meiddur, en eftirköstin urðu samt varanleg axlarmein sem ég hef lært að lifa með.“ Baráttan við kílóin héldu áfram og hár blóðþrýstingur og há blóðfita greindust. Þá pantaði heimilislæknirinn pláss fyrir Almar á Heilsustofnuninni í Hveragerði til að léttast og styrkjast. Það gerði Almari gott en hann fór fljótlega aftur í sama farið þegar heim var komið.

Janus Guðlaugsson, þegar hann kynnti heilsueflingarverkefnið fyrir hafnfirskum eldri borgurum fyrir ári. Mynd/Lára Janusdóttir.

„Ég fékk tilsögn hjá eiginkonu minni sem er jógakennari og lærði af henni m.a. slökunaræfingar og aðferðir nútvitundar. Þetta hjálpaði mjög mikið en agann skorti til að stunda markvissar aðgerðir í þjálfun og hollu mataræði,“ segir Almar. Haustið 2017 hringdu viðvörunarbjöllur enn á ný og í janúar fyrir ári fór hann aftur í Hveragerði. Þar las hann í vefútgáfu Fjarðarpóstsins tilkynningu um undirbúning verkefnisins Heilsuefling fyrir aldraða í Hafnarfirði undir stjórn Janusar Guðlaugssonar og með stuðningi Hafnarfjarðarbæjar. „Án frekari umhugsunar sótti ég strax um og byrjaði í þessu verkefni í febrúar 2018.“

Við Morraine Gordon vatnið í Kanada. Mynd í einkaeigu.

Leitar að framförum, ekki fullkomnun

Almar segir þessa ákvörðun hafa orðið stór happdrættisvinningur og hann finnur mikinn mun á sér á þessu tæpa ári. „Það átti sér stað þessi jákvæði vöruskiptajöfnuður, þegar maður brennir fitunni og byggir upp vöðvamassa í staðinn, eins og Janus orðar það. Í þessu prógrammi er líka kennd matreiðsla á hollu fæði, fræðsla um öldrun, styrkingu, næringu og að neyta þeytinga (boosters) í stað brauðmetis á milli mála. Mér fannst ég loksins kominn með lykilinn að því að bæta heilsuna og einfalda líf mitt. Það gerðist með þessari handleiðslu og ég hef líka á sl. áratugum lært ýmislegt um auðmýkt og frelsi í bland við þrautseigju og það hjálpar mér í dag. Ég leita að framförum, ekki fullkomnun!“

Samstíga hjón og þakklát fyrir að hafa bætt lífi við árin.

Hjónin Almar og Anna Björk á einni af fjölmörgu göngum sínum um bæinn sinn.

Tenging andlegrar og líkamlegrar heilsu

Almar mætir tvisvar í viku í styrktaræfingar, teygjur og öndun, og tekur þess á milli göngutúra um bæinn og mætir samviskusamlega í „ástandsskoðun“ í Kaplakrika. „Það besta sem bæjaryfirvöld geta gert fyrir fólk er að hjálpa því að hlúa að heilsunni og ég fagna að Hafnarfjarðarbær hefur sett heilsueflingu framarlega á forgangslistann,“ segir Almar. Spurður að lokum um ráð til lesenda sem vilja bæta heilsu sína segir hann að mikilvægt sé að sinna jafnt líkamlegu og andlegu heilsunni. „Þetta tengist allt saman og það er aldrei of seint að byrja en því fyrr því betra. Hlusta á viðvörunarbjöllurnar og gera eitthvað í málunum. Félagsskapurinn er svo mikilvægur og góður og með góðri handleiðslu bætum við lífi við árin.“

Forsíðumynd/OBÞ