Í fimm ár hefur Hafnarfjarðarbær boðið ófaglærðu starfsfólki á leikskólum styrki til að stunda nám í leikskólakennarafræðum. Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla hjá Hafnarfjarðarbæ, var leikskólakennari í 21 ár og segir það afar fjölbreytta, skemmtilega og gefandi vinnu. Hún segir ýmsar leiðir í boði fyrir þau sem áhuga hafa á að verða leikskólakennarar, s.s. það að námið er styrkt af bænum og fólk heldur launum á meðan. 

Síðan árið 2015 hefur starfsfólk í leikskólum bæjarins fengið námsstyrki frá Hafnarfjarðarbæ til að stunda nám í leikskólakennarafræðum. Markmiðið hefur verið að fá fleiri leikskólakennara til starfa. „Þetta er mikið kostaboð. Leikskólakennaranám er gott, hagnýtt og umfram allt gefandi nám og lítil hætta á verkefnaskorti. Það vantar alltaf góða leikskólakennara,“ segir Jenný og tekur fram að um sé að ræða 5 ára háskólanám, eins og með kennsluréttindi á öðrum skólastigum, því það sé sannarlega jafn mikið mál að kenna litlu fólki eins og stóru. Markmið leikskólakennaramenntunar er að undirbúa kennara til að starfa með börnum og fyrir samstarf við foreldra og aðra sem að uppeldis- og menntastarfi koma. Í Hafnarfirði eru 30% starfandi leikskólakennarar í dag en þurfa samkvæmt lögum að vera 75% eða ¾. 17-18% eru með aðra háskólamenntun og restin er ófaglært starfsfólk. Þessi áskorun um hlutfall faglærðra er landlæg og staðan sambærileg hjá öðrum sveitarfélögum.

Leikskólakennarar viða að sér mikilvægri þekkingu og færni í náminu kemur ekki í skóla lífsins. Mynd/OBÞ

Gott þegar allir ganga í takt
„Leikskólakennarar þurfa að lesa í þarfir barna, vita hvað þau vilja og að þau hafi þroskaþætti sem okkur er uppálagt að þjálfa hjá þeim. Sú þekking og færni kemur ekki endilega í skóla lífsins. Ófaglært starfsfólk á leikskólum skiptir miklu máli en það getur eðlilega verið lýjandi fyrir kennara að þurfa endurtekið að leiðbeina og kenna rétt handtök og aðferðir. Það er svo gott þegar allir ganga í takt og hafa sama skilninginn. Leikskólalífið verður svo gott með því,“ segir Jenný og segir spurð að besta við starfið sé fjölbreytnin í verkefnum, dögum og barnahópum. „Að vinna við það að horfa á einstaklinga öðlast ýmsa færni. Þau koma oft ómálga í skólann og eru komin með mikinn orðaforða þegar þau fara. Leiðbeina þeim t.d. að renna upp og reima skó. Gefa þeim tíma, þolinmæði og virðingu og sýna þeim fram á að skólinn er fyrir þau. Og allan grunninn sem þau fá áður en þau fara í grunnskóla.“

Leikskólanemendur fá mikinn grunn sem býr þau undir grunnskólanám. Útskrift nemenda úr Hraunvallaleikskóla 2019. Mynd/OBÞ

Tækifærin mikil

Jenný útskýrir að námsstyrkir sem bærinn veitir séu í formi launaðs leyfis vegna mætinga í staðbundinn hluta fjarnáms og verknáms og í formi eingreiðslna um allt að fjárhæð 50.000 krónur á önn auk styrkja til greiðslu á námsgjöldum og bókakaupum. Stéttarfélögin bjóða mörg hver upp á endurgreiðslu á námsgjöldum og bærinn styrkir bókakaupin „Við erum í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar og að vinna í því að koma okkur upp eigin fagsafni. Í upphafi annar er fyrst athugað hvort bók sé til á safninu. Þegar önn er lokið er námsbókum svo skilað til safnsins. Við gerum þetta einnig með endurvinnslusjónarmið í huga,“ segir Jenný og vill sérstaklega taka fram að ef einhverjum vex námstíminn í augum geti fólk með stúdentspróf byrjað á að taka leikskólaliðann í Borgarholtsskóla. Farið þaðan í háskóla að sækja diplómunám og titilinn aðstoðarleikskólakennari á bachelor-stigi. Eftir það er hægt að ná í meistara-gráðuna. „Það er gott að hugsa þetta í skrefum og svo er tíminn svo fljótur að líða. Þessu lýkur með leyfisbréfi til kennara og eftir sl. áramót geta kennarar með slík leyfisbréf kennt á öllum skólastigum. Tækifærin eru því mikil,“ segir Jenný að lokum.

Þessi umfjöllun er samstarf.
Forsíðumynd/OBÞ