Í sumar stendur sýningin Tímahvörf – sýn átta samtímaljósmyndara á Hafnarfjörð yfir í Hafnarborg en þar má sjá bæinn okkar frá sjónarhorni ljósmyndara frá Íslandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Póllandi – og sýningarstjórinn kemur frá Danmörku. Þau beina sjónum sínum að því sem er yfirleitt ekki í brennidepli og við erum vakin til umhugsunar um það hvert við stefnum sem bæjarfélag eða hvaða áhrif við, bæði byggðin í heild og íbúarnir sjálfir, höfum á nærumhverfi okkar, um það hvernig við hugsum eða viljum hugsa um bæinn. Fjarðarpósturinn ræddi við Ágústu Kristófersdóttur, forstöðumann Hafnarborgar, í tilefni opnunar sýningarinnar um þarliðna helgi.

Ágústa ásamt syni sínum við opnunina.
„Það er mikilvægt hlutverk Hafnarborgar að horfa til og endurspegla nærsamfélag sitt, að skoða bæinn, mannlífið og þróun byggðarinnar út frá skapandi sjónarhorni. Síðan ég tók við sem forstöðumaður hef ég því fylgst með listamönnum sem fást við Hafnarfjörð í verkum sínum og þá sérstaklega þeim sem stunda list sína með myndavélina að vopni, þar sem ég skynjaði að þar væri eitthvað sérstakt í gangi. Þá hafa sumir af okkar fremstu ljósmyndurum, svo sem Spessi og Pétur Thomsen, unnið myndaseríur í Hafnarfirði, þar sem þeir fylgjast með þróun byggðarinnar í bænum en verk eftir þá eru einnig hluti af safneign Hafnarborgar. Fleiri ljósmyndarar hafa sömuleiðis sótt myndefni til bæjarins og þar var margt spennandi að finna. Þegar það var svo ljóst að þetta væri efni í sýningu var danski sýningarstjórinn Kirsten Simonsen fengin til þess að fylgja hugmyndinni til enda.“

Fjöldi mynda, víða úr Hafnarfirði, er á sýningunni.
Hvernig var staðið að valinu á þátttakendum sýningarinnar?
„Þegar kom að því að velja þátttakendur var litið til þess hverjir hefðu verið virkir á þessu sviði það sem liðið er af öldinni, auk þess sem leitast var við að sýna fjölbreytt sjónarhorn og ólíkar raddir. Á endanum voru það svo þau Daniel Reuter, Marino Thorlacius, Pamela Perez, Pétur Thomsen, Spessi, Staś Zawada, Stuart Richardson og Svala Ragnars sem voru valin til leiks. Nálgun þeirra er afar ólík og sýnir okkur að bærinn býr yfir miklum töfrum hvort sem er í froststilltu landslagi, tilbúinni birtu raflýsingarinnar eða í þeim handanheimum sem aðeins næmt auga og skynjun nemur. Það var einnig merkilegt að sjá leiðir þeirra liggja saman í aðalsal Hafnarborgar, þar sem verkin fá jafnt að njóta sín á eigin forsendum og eiga í samtali sín á milli. Þrír ljósmyndaranna eiga svo einhvers konar rætur hér í bænum – Svala er uppalin hér, Staś hefur búið hér í miðbænum um árabil og Pamela er nýflutt aftur til New York eftir 10 ár í Hafnarfirði.“

Fjölbreytileg sjónarhorn eru á myndum.
Hvað hefur vinnan við sýninguna leitt í ljós?
„Hafnarfjörður hefur vissulega lengi verið viðfangsefni listamanna en samspil bæjarins við hraunið, hafið og landslagið hefur heillað bæði listmálara og ljósmyndara allt frá því á 19. öld. Þá er alltaf áhugavert að skoða það hvernig við sjálf sjáum og túlkum umhverfið í kringum okkur. Í safneign Hafnarborgar er að finna fjölmargar myndir af bænum – myndir sem sýna rómantískan smábæ sem kúrir við höfnina – en hér stöndum við kannski frammi fyrir mynd sem samrýmist ekki alveg viðteknum hugmyndum okkar um Hafnarfjörð. Þannig gefst okkur tækifæri til að bera saman þessar tvær sýnir, sýnina í gegnum ljósop samtímans saman við pensilstrokur fortíðar, og spyrja okkur hvar við viljum vera og hvað hægt sé að bæta eða gera betur. Hvernig er Hafnarfjörður 21. aldarinnar?“

Sýningargestir voru á öllum aldri.

Kristbergur Ó. Péturssin og Valgerður Halldórsdóttir.
Lesendum er bent á að Hafnarborg er opin alla daga, nema þriðjudaga, frá klukkan 12 til 17 og aðgangur er ókeypis.
Myndir/OBÞ