Tímamót verða strax 1. maí nk. þegar til stendur að hlutafélag í eigu ríkisins, Íslandspóstur ohf., hætti dreifingu á fjölpósti á SV-horni landsins.
Bæjarblöð heyra undir fjölpóst, þótt þau gegni í raun mun dýpra og mikilvægara hlutverki. Þau eru vettvangur fyrir lýðræðislega umræðu, varðveislu og endurspeglun sögu sveitarfélaga í rauntíma. Þau færa fréttir úr nærsamfélaginu sem stærri miðlar sinna síður, auk þess að vera markaðstæki fyrir íbúa, félög og fyrirtæki í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Samfélagslegt hlutverk Íslandspósts er einnig ríkt og því er þessi ákvörðun félagsins vanhugsuð.
Fyrirvarinn er sömuleiðis afar skammur og einn út af fyrir sig ekkert minna en áfall fyrir viðkvæman rekstur.
Fyrir liggur frumvarp um ríkisstuðning til handa einkareknum fjölmiðlum til að efla þá og vernda lýðræðishlutverkið sem þeir gegna. Það skýtur skökku við að á sama tíma og til stendur að styrkja einkarekna bæjarmiðla með tilstyrk hins opinbera kippir fyrirtæki í eigu ríkisins stoðunum undan sjálfri dreifingunni. Dreifingin er annað af meginskilyrðunum sem þarf að uppfylla til að eiga rétt á umræddum stuðningi.
Önnur úrræði eru ekki sambærileg, hvorki að þjónustu né kostnaði. Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur auk þess hríðversnað á skömmum tíma með tilkomu samfélagsmiðla sem stjórnvöld eru ekki enn farin að skattleggja eins og tíðkast víða erlendis.
Ég skora á hafnfirsk stjórnvöld að láta sig málið varða og gera sitt ítrasta til að koma í veg fyrir þá þróun sem liggur fyrir; að bærinn verði brátt án prentaðs bæjarblaðs.