Nýútkomin er fyrsta hljómplata hljómsveitarinnar Gadus Morhua Ensemble, PEYSUR og PARRUK. Tvö af meðlimum hljómsveitarinnar, Björk Níelsdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson, ólu manninn í Hafnarfirði og útskrifuðust frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Björk sagði okkur frá tilurð og sögu hljómsveitarinnar, sem á rætur að rekja til þjóðbúningahátíðar í Stykkishólmi.
„Við höfum verið að leika okkur með nýja tónlistarstefnu sem við köllum baðstofubarrok en þar blöndum við saman okkar íslenska langspili saman við fágaðan barrokksellóleik undrakonunnar Steinunnar A. Stefánsdóttur og nú hefur sjéntilmennið og Hafnfirðingurinn Eyjólfur Eyjólfur líka lært á barrokflautu,“ segir Björk, en hún og Eyjólfur hafa bæði komið víða við í tónlistarlífinu bæði hér heima og í Evrópu.
Sameinuðu kvöldvökur baðstofanna og tónlistarflutning evrópskrar hirðmenningar
Gadus Morhua skipa Björk, söngkona og langspil, Eyjólfur, söngvari, langspil og flauta og Steinunn, barrokselló, söngur og skáldkona. Björk segir að hljómsveitin hafi orðið til á þjóðbúningahátíð í Stykkishólmi, sem haldin er árlega skömmu eftir Jónsmessu. „Hátíðin ber heitið Skotthúfan og sumarið 2016 var þemað Jörundur hundadagakonungur. Skipuleggjendum hátíðarinnar þótti því viðeigandi að bjóða upp á tónlistardagskrá þar sem gerð yrði tilraun til að sameina kvöldvökur baðstofanna og tónlistarflutning evrópskrar hirðmenningar. Það var þá sem leiðir Eyjólfs og Steinunnar lágu saman og til varð vísir að nýjum (þjóð)tónlistarhópi. Samhljómur langspilsins og barokksellósins gaf strax ímyndunaraflinu lausan tauminn.“
Ekki leið á löngu þar til hin Björk slóst í hópinn og hafa þau síðan komið fram við hin ýmsu tækifæri, jafn innan lands sem utan. Ber helst að nefna tónleika á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði, Sönghátíð í Hafnarborg og í Les Dominicains menningarsetrinu í Guebwiller í Frakklandi.
Gadus Morhua latneska fræðiheitið yfir Atlantshafsþorsk
Varðandi nafn hljómsveitarinnar, þá segir Björk Gadus Morhua vera latneska fræðiheitið yfir Atlantshafsþorsk, og því þjóðlegt og alþjóðlegt í senn. „Það er því ekki aðeins virðulegt latneskt heiti sem sómir sér vel bæði á prenti og í mæltu máli. Heitinu er öllu fremur ætlað að vera skírskotun í þvermenningarlega tónlistarnálgun hópsins. Hryggjarstykkið í efnisskrá Gadus morhua eru íslensk og erlend þjóðlög, klassísk einsöngslög í eigin útsetningum og frumsamið efni þar sem fléttast saman hljómheimar barokksins og baðstofunnar á nýstárlegan hátt.“
Myndin er aðsend er hérna er platan á Spotify: