Tónlistarmaðurinn Axel O er einna þekktastur fyrir verk sín á sviði sveitatónlistar undanfarin ár. Axel, sem búsettur er við Strandgötuna, hefur ekki setið auðum höndum undanfarnar vikur eins og flestir tónlistarmenn, og nýtti tímann í að vinna að nýrri tónlist. Nýjasta afurð þess starfs var að líta dagsins ljós, og það er órafmögnuð bluegrass ábreiða að John Denver laginu Take Me Home Country Roads. En þetta lag er með þeim þekktari úr sveitatónlistinni.

Axel hefur undanfarin ár verið að vinna með tónlistarmanninum Milo Deering frá Bandaríkjunum. Milo sem fæddur er í Arkansas hefur verið búsettur í Texas um margra ára skeið og er afar virtur hljóðfæraleikari. Milo leikur á fjölda hljóðfæra og má þar helst nefna, Stálgítar (Pedal Steel), kassagítar, fiðlu, banjó, dobro, mandolín, selló og mörg fleiri. Milo er afar vinsæll session hljómlistarmaður og hefur spilað með ýmsum frægum tónlistarmönnum eins og The Eagles, LeeAnn Rimes, Madonna og mörgum fleiri. Axel kynntist fyrst Milo 2015 þegar Milo spilaði banjó inn á lagið You Are Trouble á plötu Axel O & Co sem kom út 2016. Upp úr því tókst góður vinskapur með þeim og meira samstarf.

Milo Deering. Mynd aðsend.

Lagið Take Me Home Country Roads gerðu þeir félagar í fjarvinnu þar sem að Milo spilar á öll hljóðfærin, kassagítar, bassa, banjó, mandólín og dobro, og var tekið upp í hljóðveri hans Acoustic Kitchen í Dallas, Texas. Sönginn tók Axel hins vegar upp í Stúdío Paradís hjá Jóhanni Ásmundssyni sem allir landsmenn þekkja. Bakraddir voru í höndum söngvarans Drew Hall frá Texas, og vor teknar upp í Rosewood Studios í Tyler, Texas.

Milo Deering átti að koma fram ásamt Axel O, Stefaníu Svavars, og hljómsveit í Bæjarbíó á Björtum Dögum, en fresta var þeim tónleikum til 22. ágúst 2020 vegna veirufaraldursins. Nú styttist í að Hafnfirðingar fái að njóta þess að sjá þessa frábæru tónleika í Bæjarbíó í Ágúst.