Núverandi meirihluti hefur lagt áherslu á að lækka álögur á fjölskyldufólk; á þeim sem bera þyngstu byrðarnar. Það höfum við gert með margvíslegum hætti og má þar nefna einfaldar aðgerðir á borð við að stórhækka systkinaafslátt á leikskólagjöldum og að koma á nýjum systkinaafslætti á skólamáltíðir grunnskólabarna. Með þessum aðgerðum hefur okkur tekist að auka ráðstöfunartekjur venjulegs fjölskyldufólks í Hafnarfirði með tvö, þrjú og jafnvel fleiri börn um 70 til um 130 þúsund krónur á ári. Þetta skiptir máli.
Lóðum verið úthlutað fyrir hundruði íbúða á síðustu mánuðum
Við höfum einnig unnið ötullega að skipulagsmálum hér í Hafnarfirði. Það höfum við bæði gert með því að skipuleggja nýbyggingarsvæði í bland við þéttingarsvæði. Á þessum tímapunkti, þegar við rýnum í tölur og staðreyndir, hefur lóðum undir mörg hundruð íbúðir verið úthlutað í Hamranesi auk þess sem skipulagsvinna á Hraun-vestur er á lokastigi. Á báðum þessum svæðum fara framkvæmdir að hefjast. Búast má við því að lóðir á þéttingarsvæðum eins og við Hjallabraut og Hlíðarbraut verði vinsælar en þær lóðir verða auglýstar lausar til úthlutunar á næstunni. Ánægjulegast er þó að sjá hve vel gengur við uppbyggingu í Skarðshlíðinni þar sem allt fór á fljúgandi ferð þegar raflínurnar voru loks færðar og framkvæmdir við Ásvallabraut voru samþykktar. Fyrstu íbúðirnar í fjölbýlishúsunum eru að koma í sölu og íbúum í sérbýlum hverfisins fjölgar jafnt og þétt á þessum fallega stað.
Áfram veginn
Rúm tvö ár eru nú liðin af kjörtímabilinu. Við erum stolt af verkum okkar hingað til. Meirihlutinn hefur verið samstíga um mikilvægi þess og nauðsyn að standa með fólkinu og þeirri starfsemi sem er í bænum. Við erum að reka samfélag hér í Hafnarfirði og það er mikilvægt að átta sig á því í þeim ólgusjó sem samfélagið og heimurinn allur nú siglir. Við munum halda áfram stýra af ábyrgð en jafnframt að tala fyrir aðgerðum sem styðja við hagfellt umhverfi fyrir fjölskyldur, uppbyggingu og atvinnulíf hér í Hafnarfirði. Betra samfélagi fyrir alla.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar