Steinunn Inga Stefánsdóttir rekur litla fyrirtækið sitt Starfsleikni við Strandgötu 11 í Hafnarfirði. Hún er menntuð í sálfræði og með framhaldsnám, MSc í viðskiptasálfræði og MSc í streitufræðum. Streita, álag og óvissa eru því málefni sem hún þekkir vel til og er vön að aðstoða þá sem til hennar leita.
Frá áramótum hafa orðið ýmis áföll með tilheyrandi álagi og óvissu í för með sér. Steinunn segist finna að margir upplifi aukið álagi, streitu og óöryggi og þörf á einkaráðgjöf, handleiðslu og stuðningi vegna áhyggja eða áhrifa af COVID-19 sé töluverð. „Til dæmis vegna ættingja eða ástvina í áhættuhópum, starfsöryggis og áhrifa tímabundinna lokana, áhrifa á viðskipti og eigin fjárhag. Margir átta sig ekki á að hægt er að taka tímana hjá mér í fjarfundi með myndsímtali eða venjulegri hringingu beint úr símanum. Ég er mjög sveigjanleg og mæti þörfum fólks á þessum tímum hvort sem fólk vill spara tíma og ferðir, er í sóttkví, á landsbyggðinni eða í útlöndum.“ segir Steinunn.
Áhyggjur bæta ekkert þótt alvarleikinn sé mikill
Steinunn segir gefandi að aðstoða fólk. „Engir tveir eru að fást við það sama enda eru engar tvær aðstæður eins. Þess vegna eru einkatímar, þar sem fólk hefur tækifæri til að fá speglun, aðstoð eða ráð í sínum aðstæðum svo mikilvægir. Það er eðlilegt að taka hlutunum þegar svona stendur á alvarlega, en samt er mikil munur á því að taka einhverju alvarlega og að hafa áhyggjur af því. Flestar áhyggjur eru óþarfar og auka bara líkur á óþarfa streitu, kvíða og vangetu til að vinna vel úr stöðunni. Við þurfum æðruleysi og yfirvegun á krefjandi tímum. Ég styð fólk til að festast ekki í streituvaldandi áhyggjuhugsunum þrátt fyrir alvarlegar aðstæður. Það er nefnilega svo mikilvægt að halda gleðinni.“
Handleiðsla í göngutúrum
Steinunn er útivistarkona og er með diploma í einkaþjálfun. „Stundum fara einkatímar og handleiðsla fram utan dyra í göngutúr ef það hentar viðkomandi. Það er aldrei að vita nema teknar séu smá teygjuæfingar og tjútt enda er hreyfing utan dyra mjög streitulosandi og hjálpar gleðihormónunum að rokka.” Steinunn nefnir að við þurfum að huga sérlega vel að gunnstoðum andlegrar og líkamlegrar heilsu. Það skipti mjög miklu máli að hlúa að góðum svefni og hvíld, borða góðan mat og vera í góðum félagsskap. Nú sé máttur samfélagsmiðlanna svo sannarlega mikilvægur vegna þess að þeir geta nýst svo vel í samskiptin á svona tímum.
Í lokin minnir Steinunn á að þótt alvarleiki vegna COVID-19 sé mikill þessar vikurnar megi ekki gleyma sér á vaktinni. Umræðuefni í einkatímum séu auðvitað meira og minna þessi venjulegu starfstengdu viðfangsefni svo sem stjórnunaraðferðir, leiðtogahlutverkið, þrautseigja einyrkjans, ný eða breytt ábyrgð, starfsleit og starfslok, krefjandi samskipti og mikilvægir samningar, áföll eða breytingar í störfum og á starfshögum, jafnt sem vonbrigði, markmið og sigrar í einkalífi og starfi.
Mynd/OBÞ