Skarðshlíðaleikskóli í Vallahverfi var formlega opnaður fyrir skömmu og er um að ræða 18. leikskólann í Hafnarfirði. Starfsemi hans mun miða að nánu samtarfi við grunnskóla, tónmenntaskóla, íþróttahús og bókasafn, því öll sú starfsemi verður undir sama þaki. Að sögn leikskólastjórans Berglindar Kristjánsdóttur verður lögð áhersla á að skapa góðan starfsanda þar sem allir fá að njóta sín og leggja sitt að mörkum. Slíkt fyrirkomulag auki á tækifæri og bjóði upp á fjölbreyttar leiðir til lærdóms og samvinnu.

Berglind Kristjánsdóttir, leikskólastjóri.

„Leikskólabörn lifa fyrir stað og stund og eru ávallt að kanna og uppgötva nýja hluti og trúi ég því að okkar bíði hópur fróðleiksfúsra vísindamanna sem stöðugt sækja eftir aukinni þekkingu. En það að efla menntun og vellíðan barna ásamt því að kenna þeim á lífið og tilveruna því það er mikilvægur þáttur í öllu leikskólastarfinu,“ sagði Berglind m.a. í ræðu sem hún hélt við opnunina. Einnig tóku til máls Helga Ingólfsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, sem sagðist vænta þess að innan skamms verði Skarðshlíðarhverfið ekki bara eitt af bestu byggingarsvæðum á stór-höfuðborgarsvæðinu heldur einnig eitt vinsælasta búsetusvæðið.

Starfsemi skólastiganna mun þjóna nýrri byggð í Skarðshlíðarhverfi og Vallahverfi að hluta. Gert er ráð fyrir að sumarið 2020 verði húsnæði skólasamfélagsins í Skarðshlíð fullbyggt og hýsi heildstæðan grunnskóla frá 1. – 10. bekk fyrir 400-500 nemendur, fjögurra deilda leikskóla fyrir um 80-90 nemendur, tónlistarskóla sem getur annað allt að 200 nemendum og íþróttahús fyrir bæði skólastigin.

Sigurrós Jónsbragadóttir, sérkennslustjóri og Katrín Hildur Jónasdóttir, aðstoðarleikskólastjóri.

Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar, afhendir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra lyklavöldið að húsnæðinu.

Útisvæðið er mjög nútímalegt, litríkt og fjölbreytt.

Þarna efla börnin hreyfiþroskann.

Þessi unga dama bauð upp á ís.

Þessi skellti sér í hlutverk verslunarstjóra.

Aðstaða sérskennslustjóra er afar aðlaðandi og hlý.

Notalegt að sitja þarna.

Leikföngin koma smátt og smátt.

Forsíðumynd: Helga Ingólfsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu, Berglind Kristjánsdóttir skólastjóri, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla.

Myndir: OBÞ