Hjarta Hafnarfjarðar verður á sínum stað í sumar enda hátíðin lítil og krúttleg þó hún hafi verið vaxandi síðustu ár. Þannig er hún engin ógn við fjöldatakmarkanir þríreykisins sem litið hefur svo vel eftir okkur síðustu misseri. Uppsetning hátíðarinnar verður með hefðbundnu sniði. Nafntogaðir eðalistamenn á gæðatónleikum inn í Bæjarbíó og bæjarhátíð á planinu fyrir utan og á strandgötunni um kvöldið. Þar verður tónleikunum inni varpað á stóran skjá í hátíðartjaldi og svo verður lifandi tónlist þar líka í bland. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar.

Hátíðin hefur á örfáum árum fest sig í sessi í Hafnarfirði og er orðin partur af sumardagskrá bæði íbúa og nágranna Hafnarfjarðar sem eru búnir að átta sig á töfrum Strandgötunar og nágrenni hennar en þar er að finna marga skemmtilegustu veitingastaði höfuðborgarsvæðisins og margir líkt hverfinu við listamanna hverfi út í heimi.


BJÖRGVIN, STJÓRNIN, MANNAKORN OG NÝ DÖNSK
Fyrstu listamennirnir sem kynntir eru til leiks í ár eru ekki af verri endanum og það má segja að hér séu nokkur stærstu nöfn íslenskrar dægurtónlistar síðustu áratuga. Öll eiga þau lög á topp listum síðustu áratuga þegar kemur spilun og lýðhylli. En það eru: Mannakorn, Stjórnin, Björgvin Halldórsson og Ný Dönsk, það má því vera lýð ljóst að hér verður hver gæðum hlaðin tónlistarstundin á eftir annarri.
Þriðjudagskvöldið 14. júlí: Mannakorn
Í 40 ár hefur hljómsveitin Mannakorn fylgt þjóðinni með hverri dægurperlunni á fætur annarri. Lög sem eru orðin þjóðareign og söngluð eru á mannamótum um allar sveitir allt árið um kring. Þar nægir að nefna lög eins og Reyndu aftur, Einhverstaðar einhvern tímann aftur, Elska þig, Braggablús, Gamli góði vinur, Ég elska þig enn, Óralangt í burtu, Á rauðu ljósi, Sölvi Helgason, Samferða, Garún og Ó þú? Þau Maggi Eiríks, Pálmi Gunnars og Ellen Kristjáns verða ásamt hljómsveiti á sviðinu í Bæjarbíói þriðjudagskvöldið og best að tryggja sér miða á þetta gæða kvöld sem fyrst.
Miðvikudagskvöldið 15. júlí: Stjórnin
Hljómsveitin Stjórnin, þau Sigga Beinteins og Grétar Örvars, virðast aldrei hafa verið vinsælli en síðasta ár. Það er sama hvar sveitin stígur á stokk þessa daganna, þá ætlar allt um koll að keyra. Á tónleikum þeirra hér í Bæjarbíó í fyrra var stuðið svo mikið að við veltum því fyrir okkur af hverju við værum að selja í sæti því engin settist alla tónleikana. Nú snúa þau til baka til okkar í Bæjarbíó og ætla að endurleika hasarinn á tónlistarhátíðinni okkar Hjarta Hafnarfjarðar.
Fimmtudagskvöldið 16. júlí: Björgvin Halldórsson og hljómsveit
Okkar eini sanni Björgvin Halldórsson verður að sjálfsögðu í Bæjarbíói – Hjarta Hafnarfjarðar í sumar. Það er hreinlega óhugsandi að njóta ekki krafta og hæfileika Björgvins okkar í hans heimabæ! Hann hefur verið órjúfanlegur hluti af hátíðinni frá upphafi og er eini listamaðurinn sem hefur staðið á sviði Bæjarbíós öll árin. Björgvin kemur fram á hátíðinni í fjórða skipti ásamt hljómsveit. Við getum ekki beðið!
Föstudagskvöldið 17. júlí: Ný Dönsk
Á föstudagskvöldið verður það svo Ný Dönsk sem stillir sér upp á sviðinu í Bæjarbíó. Framlag þeirra til dægurmenningar Íslands er ótvírætt, lagalistinn er langur og fjölbreyttur og þá skemmir ekki að í hljómsveitinni eru bæði fanta lagasmiðir og afburða hljóðfæraleikarar. Hljómsveitin hefur ítrekað fyllt Bæjarbíó og oftar en ekki kvöld eftir kvöld. Það má því ljóst vera að miðarnir á þessa tónleika stoppa ekki lengi í lúgunni á tix.is. Hljómsveitina skipa sem fyrr; Björn Jörundur Friðbjörnsson, Daníel Ágúst Haraldsson, Jón Ólafsson, Ólafur Hólm, Stefán Hjörleifsson og þeim til aðstoðar er Ingi Skúlason, bassaleikari.
Miðasala er hafin á þessa viðburði og fer hún fram á tix.is
nánar á
http://baejarbio.is
https://www.facebook.com/baejarbio/