Eftir fund hjá Neyðarstjórn Hafnarfjarðarbæjar í morgunsárið hefur verið tekin ákvörðun um að fresta árshátíð Hafnarfjarðarbæjar um óákveðinn tíma. Fulltrúar almannavarna hafa að höfðu samráði við sóttvarnalækni metið það svo að starfsfólk sem vinnur með og sinnir einstaklingum sem falla undir skilgreiningu á viðkvæmum hópum ætti að forðast að taka þátt í fjölmennum mannsöfnuðum. Slíkt á við um marga starfsmenn sveitarfélaga, þar með talið miðlægrar stjórnsýslu og ráðhúss.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19). Fyrstu smit innanlands voru staðfest í gær og eru þau orðin a.m.k. fjögur talsins. Í kjölfarið var ákveðið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna. Það er gert m.a. á grunni þess að sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands. Neyðarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hefur komið saman og er að störfum, verið er að tryggja að starfsemi sveitarfélagsins geti haldist órofin áfram, unnið er samkvæmt áætlun þess efnis og verið að gera ráðstafanir komi til skertrar mönnunar hjá sveitarfélaginu. Staðan er metin daglega.