Handknattleikskarl ársins 2019 er Aron Pálmarsson, vinstri skytta og leikstjórnandi spænska meistaraliðsins Barcelona. Þetta kemur fram á vef HSÍ.

Aron varð þrefaldur meistari á Spáni á síðasta keppnistímabili með Barcelona auk þess sem liðið komst í „final four“ úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í vor. Aron  hefur blómstrað með liðinu á yfirstandandi leiktíð þar sem liðið ber höfuð og herðar yfir önnur í heimalandinu auk þess sem það hefur verið eitt það sigursælasta í Meistaradeild Evrópu fram til þess á keppnistímabilinu. Til viðbótar hefur Aron um árabil verið lykilmaður íslenska landsliðsins.

Aron er 29 ára gamall og fékk sitt handknattleiksuppeldi hjá FH. Hann lék upp yngri flokka félagsins og var í fyrsta sinn í meistaraflokki í mars 2006, þá tæplega 16 ára gamall.  Þremur árum síðar gekk Aron til liðs við stórliðið THW Kiel í Þýskalandi og var á mála hjá liðinu í burðarhlutverki í sex ár. Eftir árin hjá Kiel gekk hann til liðs við ungverska meistaraliðið Veszprém.  Árið 2017 gerðist Aron leikmaður Katalóníurisans Barcelona.

Aron hefur verið afar sigursæll á sínum ferli og unnið flesta þá titla sem lið hans hafa leikið um. Hann var valinn mikilvægasti leikmaður „final four“ úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu vorin 2014 og 2016 og var í sigurliði Meistaradeildar 2010 og 2012. Einnig hefur Aron leikið nokkrum sinnum til úrslita. Hann var í bronsliði Íslands á EM 2010 og er mörgum eflaust í fersku minni stórleikur Arons í sigurleik á Dönum á mótinu.  Aron var kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna 2012.

Hinn 29. október 2008 lék Aron sinn fyrsta A-landsleik á móti Belgíu í Laugardalshöll. Hann hefur tekið þátt í öllum stórmótum landsliðsins frá og með EM 2010 ef frá er talið HM 2017 og á að baki 141 landsleik sem hann hefur skorað í 553 mörk. 

Sem atvinnumaður í handknattleik í áratug hefu Aron verið einstök fyrirmynd ungra handknattleikiðkenda, bæði hér á landi og erlendis.

MYND/OBÞ