Hafnfirðingurinn Aron Pálmarsson átti sannkallaðan stórleik í fyrsta sigri Íslands á Dönum á stórmóti síðan 2010, þegar Ísland vann heims- og Ólympíumeistara Dana með 31 marki gegn 30, í fyrsta leik sínum á Evrópumóti karla í handbolta í Malmö í kvöld.

Aron Pálmarsson. Mynd/Strákarnir okkar

Staðan var jöfn, 15-15, í hálfleik og var leikurinn afar jafn og sterkur allan tímann. Aron Pálmarsson (FH) átti magnaðan leik og kom alls að tuttugu mörkum. Hann skoraði tíu mörk, gaf níu stoðsendingar og fiskaði eitt víti. Aron var valinn maður leiksins og var þetta 142. leikur hans með A-landsliðinu.

Björgvin Páll Gústavsson, sem nýlega gerði samning við Hauka, varði 9 skot og stórskyttan Ólafur Guðmundsson (FH) var 3. fulltrúi Hafnfirðinga í liðinu og svo er aðstoðarþjálfarinn Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Hauka.

Leikurinn gegn Dönum var 222. landsleikur Björgvins Páls og 113. landsleikur Ólafs. Gunnar Magnússon hefur verið aðstoðarþjálfari landsliðsins síðan í febrúar 2018.

Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/Strákarnir okkar.
Ólafur Guðmundsson. Mynd/Strákarnir okkar.
Gunnar Magnússon. Mynd/Strákarnir okkar.
Hafnfirðingar voru einnig með sinn fulltrúa í EM-stofunni á RÚV, Loga Geirsson, fyrrum landsliðsmann í handbolta. Mynd/skjáskot af RÚV.

Um þúsund Íslendingar, þar af stór hópur Hafnfirðinga, fjölmenntu í íþróttahöllina í Malmö.

Tryggvi „forseti “Rafnsson, blaðamaður Hafnfirðings, ásamt föður sínum Rafni Svani Oddssyni og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Mynd í eigu Tryggva, sem tekin var fyrir leikinn gegn Dönum.