Breski fimm barna faðirinn Andy Morgan, sem Mbl.is ræddi við í síðasta mánuði vegna þess að enginn leikskóli í Reykjavík vildi ráða hann í vinnu, var boðið starf á leikskólanum Hjalla hér í Hafnarfirði. Hafnfirðingur ræddi við Heiðu Ingimarsdóttur, eiginkonu Andy, sem segir hann alsælan og hann hafi strax mætt til vinnu á Hjalla daginn eftir starfsmannaviðtal.

„Leikskólastjórinn á Hjalla hafði samband beint við Andy á messenger og bauð honum í starfsmannaviðtal ef hann hefði áhuga á starfi. Hann mætti í viðtalið 30. september og gekk út úr því með atvinnutilboð sem hann að sjálfsögðu þáði á staðnum, enda leist honum strax vel á leikskólann og andann þar,“ segir Heiða, sem að vonum er einnig létt, en Andy hafði reynt að fá starf á leikskóla í Reykjavík í tvo mánuði án árangurs. Eins og fram kemur í viðtalinu á Mbl.is þótti þeim hjónum það skjóta skökku á meðan störf á leik­skól­um í höfuðborginni væru aug­lýst og deild­um lokað vegna veik­inda starfs­manna. Andy hafi langað mest af öllu að vinna á leikskóla og á heimili hans sé töluð ís­lenska.

Leikskólinn Hjalli er við Hjallabraut 55. Mynd/Hfbær

Heiða segir að Andy tali um að allt viðmót á Hjalla sé yndislegt. Foreldrar og samstarfsfólk sé afar vinalegt og allir hjálpsamir. „Leikskólabörnunum líður greinilega vel þar og Andy segir að það sé frábært að vinna þar. Það er því óhætt að segja að atvinnuleit hans hafi endað farsællega í Hafnarfirði.“

Andy og Heiða, ásamt tveimur af börnum sínum. Myndir í eigu þeirra.