Sóltún öldrunarþjónusta tók við rekstri hjúkrunarheimilisins Sólvangs 1. apríl síðastliðinn og hóf starfsemina fyrst í gömlu byggingunni, þar til flutt var í nýtt og glæsilegt húsnæði 18. september. Ríkið hafði rekið Sólvang síðan 1991. Við hittum gaflarann og framkvæmdastjórann Höllu Thoroddsen, en langafi hennar var sjálfur Jóhannes Reykdal.

Nýi Sólvangur, norðan megin. Mynd/OBÞ
Halla sunnan megin við Sólvang. Mynd/OBÞ

Við byrjuðum á að spyrja Höllu hvaða eiginleika manneskja þarf að bera til að taka við svona starfi. „Jákvæð að eðlisfari og koma fram við alla af virðingu. Einnig að vera með fjölbreytta reynslu að baki og hafa gaman af verkefnunum og líta á þau sem eitthvað til að leysa.“ Halla er viðskiptafræðingur með M.Sc. gráðu í upplýsingatækni og stjórnun. „Sem var gagnlegt því tækniumhverfið hér var orðið barn síns tíma. Þetta var fjársvelt stofnun. Ég starfaði í banka í mörg ár í markaðs-, tækni- og þjónustumálum og sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði þar sem ég kynntist rekstri,“ segir hún. 

Þuríður G. Ingimundardóttir íbúi er mjög ánægð með nýju vistarverurnar – og þá sérstaklega útsýnið yfir lækinn. Mynd/OBÞ

Þekktust ekki áður

Þegar upp kom fyrir ári síðan að Sólvangur færi í útboð kom Inga Eyþórsdóttir hjúkrunarfræðingur inn í verkefnið en hún er með meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu og er í dag framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sólvangi. „Við þekktumst ekkert áður en unnum að útboðinu saman fyrir hönd Sóltúns öldrunarþjónustu ehf og hrepptum hnossið. Þá rak ég Sóltún Heima, heimaþjónustu fyrir aldraða, sem ég geri reyndar enn líka. Við náum mjög vel saman og byggjum samstarfið á styrkleikum okkar beggja.“ 

Frá Sólvangsdeginum um sl. helgi. Mynd/OBÞ

Halla og Inga byrjuðu starfsemina í gamla húsnæði Sólvangs í apríl og nýttu því hálfa árið fram að flutningi í nýja Sólvang í að kynnast íbúum og starfsfólki. „Einhverjir óttuðust að andinn kæmi ekki með yfir í nýju bygginguna. Við grínuðumst með hvort við ættum að flytja hann yfir í krukkum, en það reyndist óþarfa ótti því að mínu mati snýst andinn fyrst og fremst um starfsemina og fólkið, ekki húsnæðið. Fólki líður vel hér og það var svo ánægjulegt, þegar við vorum að undirbúa flutningana með aðstandendum íbúanna, að finna hvað þeir voru einstaklega jákvæðir og þakklátir. Við viljum halda í hefðir en samt horfa fram á við. Fólk er líka stolt af því að vinna hérna. Það kom fram í starfsánægjukönnun sem við létum gera.“

Afar hlýleg og notaleg rými eru í nýja húsnæðinu. Mynd/OBÞ
Áberandi litirnir eru mismunandi eftir hæðum. Mynd/OBÞ

Lífsgæði að búa í HafnarfirðiGaflarinn Halla náði ekki að fæðast á núverandi vinnustað sínum því fæðingardeildin var lögð niður ári áður, 1976, en henni finnst frábært að vera komin að aftur að vinna í heimabænum, eftir að hafa starfað í Reykjavík frá því hún var unglingur. „Ég bý í Setberginu og er örfáar mínútur heim. Við fáum margar atvinnuumsóknir og gengur vel að fá fólk í vinnu. Hafnfirðingar vilja starfa í Hafnarfirði. Það eru lífsgæði að vinna og búa hér,“ segir Halla að endingu.  

Skemmtileg nöfn á hæðum og rýmum. Mynd/OBÞ
Myndir af Göflurum eru á göngunum. Mynd/OBÞ
Frá Sólvangsdeginum. Bandalag kvenna í Hafnafirði sá um vöfflubaksturinn að venju. Mynd/aðsend.
Nikkutónarnir ómuðu um gangana. Mynd/OBÞ