Hafnfirðingurinn Eyjólfur Eyjólfsson lauk burtfararprófi í flautuleik og söng frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar árið 2002 og MMus gráðu frá Guildhall School of Music and Drama árið 2005. Eyjólfur er virkur óratoríusöngvari bæði hér heima og víða um Evrópu. Eyjólfur er meðal þeirra sem munu koma fram á árlegri Sönghátíð í Hafnarborg sem fram fer 2. – 12. júlí og við ræddum við hann og komumst að sterkum tengslum hans við húsnæði Hafnarborgar.
„Þegar ég var 9 ára gamall hóf ég þveflautunám hjá Gunnari Gunnarssyni við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Þá starfaði skólinn í Alþýðuhúsinu að Strandgötu 32 og vegna nálægðarinnar við Hafnarborg fóru flestir tónleikar fram í aðalsal safnsins. Það voru forréttindi að tónlistaruppeldið færi að hluta til fram í svo myndarlegri menningar- og listamiðstöð. Það var alltaf viðburður að koma fram í Hafnarborg enda hljómburður og umgjörð rýmisins einstaklega falleg. Það sem gerði umgjörðina svo sérstaka og eftirminnilega var að hún tók sífelldum breytingum með uppsetningu nýrra myndlistarsýninga; það skapaðist því sérstakt samtal milli tónlistarinnar og myndlistarinnar sem hafði án efa mikið uppeldisgildi,“ segir Eyjólfur.

Kynntist krókum og kimum byggingarinnar
Þá hafi einnig haft mikil áhrif á samband hans við húsið að amma hans og afi, Sigrid Anna Jósefsdóttir Felzmann og Yngvi Örn Guðmundsson, störfuðu bæði við húsið um nokkurt skeið. „Á þessum tíma voru því hæg heimatökin að lauma sér á hina ýmsu tónleika sem fóru fram í húsinu og höfðu tónleikaraðir Tríós Reykjavíkur sterk áhrif á mig. Amma sat yfir myndlistarsýningum og afi var húsvörður. Fjölskyldutengslin við húsið urðu til þess að ég kynntist hinum ýmsu krókum og kimum byggingarinnar sem eru jafnan huldir hinum almenna safngesti. Kjallarinn þar sem afi hafði vinnuaðstöðu var sérstaklega spennandi. Einstaka sinnum fékk ég að líta inn fyrir eldvarnahurð listaverkageymslunnar þar sem safnkosturinn var geymdur. Þar hvíldu í stórum hirslum ný og gömul málverk og biðu stóísk eftir athygli sýningarstjóra. Það var eitthvað magnþrungið við geymsluna, öll þessi málverk sem höfðu svo mikla nærveru þrátt fyrir að standa ósýnileg í hillum,“ rifjar Eyjólfur upp.

Spilar aftur á tréflautu eftir langt hlé
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, stjórnandi Sönghátíðarinnar, bjó auk Eyjólfs og Fransisco Javier í Hackney-hverfinu þegar þau stunduðu nám við Guildhall School of Music and Drama í London. „Þau buðu mér að taka þátt í annarri sönghátíðinni 2018. Mér fannst einstaklega gaman og spennandi að þessi góðu vinir mínir hefðu haft frumkvæðið af svo metnaðarfullri tónlistarhátíð í heimabænum mínum. Einnig þótti mér mjög vænt um að Sönghátíðin hefði fundið sér heimili í Hafnarborg því húsið er ein helsta uppeldisstöðin mín þegar kemur að tónlistarsköpun og öðru menningarstarfi.“ Eyjólfur segir það hafa verið einstaklega gefjandi og skemmtilegt að undirbúa tónleikana 5. júlí því þar tvinnist saman margir þræðir sem séu honum mér afar kærir.
„Ég hef nýverið tekið við að spila aftur á flautu eftir langt hlé, en ég lagði hana svo til á hilluna þegar ég byrjaði í söngnámi. Það hefur lengi verið draumur að komast yfir þverflautu smíðaða úr tré og í vetur fékk ég að láni fallega smíðaða flautu sem er einhvers konar sambland af írskri þjóðlagaflautu og barokk-flautu. Mér þykir mjög vænt um að fá að flytja þessa fallegu efnisskrá með kærum vinum þar sem ég mun bæði syngja og spila á tréflautuna í húsinu þar sem tónlistarferillinn hófst með flautuspili fyrir rúmum þrjátíu árum síðan.“
Aðalmynd aðsend.
Mynd af Hafnarborg – OBÞ