Alzheimersamtökin fengu óvænta velvild og styrk þegar samþykkt var innan Oddfellowreglunnar á Íslandi að kosta framkvæmd á endurinnréttingu aðstöðu samtakanna á 3. hæð í Lífsgæðasetri St. Jó. Styrkurinn gæti numið um 100 milljónum króna. Í fyrsta sinn á Íslandi verður veitt þjónusta sérstaklega sniðin að þeim sem greinast undir 65 ára aldri.
Þetta var tilkynnt á Facebook síðu Alzheimersamtakanna í morgun. Lengi hefur staðið til á vegum samtakanna að koma á fót þjónustumiðstöð fyrir einstaklinga sem greinst hafa með heilabilun. Með þessum styrk verður hún að verða að veruleika og áætlað er að kostnaðurinn á endurinnréttingu aðstöðu nemi um 100 milljónum króna.
„Orð fá ekki lýst þakklæti okkar í garð Oddfellowreglunnar en verkefnið mun gjörbreyta allri starfsemi samtakanna. Þá verður í fyrsta skipti á Íslandi veitt þjónusta sem sérstaklega verður sniðin að þeim sem greinast ungir eða fyrir 65 ára aldur. Ætlunin er að veita líka þjónustu þeim sem skemur eru gengnir með heilabilun auk aðstandenda þessara hópa.Samtökin munu flytja alla sína starfsemi í Hafnarfjörð þegar að því kemur,“ segir í tilkynningunni.
Mynd af St. Jó/OBÞ