Þann 25. maí næstkomandi er alþjóðlegi skjaldkirtilsdagurinn og ætlar Skjöldur- félag um skjaldkirtilssjúkdóma að halda upp á daginn með því að bjóða félagsmönnum sínum upp á ókeypis fyrirlestur sem tengist sjúkdómum í skjaldkirtli. Fleiri atburðir verða á vegum félagsins dagana á eftir skjaldkirtilsdeginum.

Fyrirlesari verður Róbert Guðfinnson athafnamaður og fjallar hann um: „Hver ber ábyrgð á heilsu þinni?“.

Þau efni sem hann mun drepa á eru eftirfarandi:

  • „Eru tengsl á milli meðhöndlunar á vanvirkum skjaldkirtli og mikillar notkunar á þunglyndislyfjum á íslandi?“
  • „Hvernig má einfalda aðgengi skjaldkirtilssjúklinga að heilbrigðiskerfinu?“
  • „Öldrun og vanvirkni skjaldkirtils?“

Fyrirlestur hefst klukkan 13.00 og verður haldinn í Safnaðarheimili Seljakirkju, Hagaseli 40, 109 Reykjavík.  Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn, frítt er fyrir félagsmenn ásamt einum gest en aðrir greiða 3000kr. fyrir aðgang og léttar veitingar.

Eftir fyrirlesturinn verður boðið upp á kaffi og meðlæti.

Í tilefni dagsins hefur Skjöldur gefið út bækling sem tileinkaður nýgreindum og aðstandendum þeirra.

Stjórn Skjaldar gerði óformlega könnun á högum þeirra sem hafa skjaldkirtilssjúkdóma árið 2017. Í könnuninni tóku þátt 434 og 95% þeirra höfðu þegar fengið greiningu læknis á skjaldkirtilssjúkdómi. Könnunin var gerð í gegnum internetið og tryggt var að svörin væru ekki persónurekjanleg.

Helstu niðurstöður eru þær að Íslendingar sem þjást af skjaldkirtilssjúkdómum kvarta yfir skorti á læknisþjónustu og upplýsingum en þess ber að geta að skjaldkirtilssjúkdómar eru algengastir af þeim krónísku sjúkdómum sem eru þekktir fyrir að leggjast aðallega á konur.

Í könnuninni kemur fram að:

  • Aðeins 18% svarenda telja sig hafa fengið viðunandi upplýsingar um sjúkdóminn frá lækni sínum en rúmur helmingur svarenda eða 52% hafa enga fræðslu fengið.
  • Einungis 37% svarenda njóta þjónustu sérfræðilækna í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum.
  • Um 57% finnst læknisþjónusta vegna skjaldkirtilssjúkdóma vera ófullnægjandi.
  • 93% svarenda hafa greiningu um vanvirkni í skjaldkirtli en 7% eru greindir með ofvirkan skjaldkirtil.
  • Um 63% svarenda voru greindir með skjaldkirtilssjúkdóm sinn á síðustu 10 árum en um 15% sjúklinga voru greindir fyrir meira en 20 árum.
  • Levaxin reyndist algengasta lyfið við vanvirkni en 55% sjúklinganna eru á því eingöngu en 29% sjúklinga taka Euthyrox en bæði þessi lyf innihalda eingöngu T4 hormón.
  • Aðeins um 5% eru á blandaðri meðferð og taka annað hvort T4 lyfið ásamt Liothyronin sem er T3 hormón.
  • Um 3% svarenda taka Armour eða Erfa, sem eru náttúruleg hormón unnin úr þurrkuðum skjaldkirtli dýra.
  • Enginn sjúklingur sagðist kaupa sín lyf á netinu.
  • Reynsla 60% svarenda af skjaldkirtilslyfjum er góð eða mjög góð en 23% svarenda eru óánægðir með árangur sinna lyfja.
  • 28% eru óánægð með úrval skjaldkirtilslyfja á Íslandi.

Skjöldur- félag um skjaldkirtilssjúkdóma var stofnað 7. apríl 2014.

Tilgangur þess er að auka vitund almennings á einkennum skjaldirtilssjúkdóma sem og vera vettvangur skjaldkirtilssjúklinga til að deila reynslu og auka samtakamátt.

Árgjald félagsins er 2500 kr. og hægt er að ganga í félagið með því að senda tölvupóst á skjaldkirtill.is@gmail.com með nafni og kennitölu eða fylla út skráningarblað sem er á heimasíðu félagsins, skjaldkirtill.is.