Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, tilkynnti rétt í þessu í beinni útsendingu á daglegum stöðufundi almannavarna vegna Covid-19, að allt íþróttastarf fellur niður meðan á samkomubanni stendur.

Í útsendingunni sagði Lárus að 104 þúsund iðkendur séu skráðir hjá ÍSÍ og stór hluti þessa fjölda sé barna og ungmennastarfið. Velt hafi verið fyrir sér hjá ÍSÍ hvernig hægt hefði verið að halda íþróttastarfi áfram undir þeim skilmálum sem fylgja samkomubanninu. Lárus sagði að ánægja sé með niðurstöðuna sem fékkst á fundi með heilbriðgðisráðuneytinu þótt hún hafi verið sú að allt íþróttastarf falli niður á meðan samkomubanninu stendur. „En við verðum bara að líta á þetta sem annað stórt verkefni.“

Lárus sagði einnig að afreksfólkið sé í erfiðri stöðu til að reyna halda sig í keppnisformi og er að reyna að lágmarki fyrir ÓL, EM og önnur stórmót. Afreksfólkið hafi stöðugt þurft að breyta sínum plönum og bregðast við breyttum aðstæðum. Reglur um sóttkví hafi haft áhrif á þennan hóp.

Samfélagsmiðlar og fjartækni leika stórt hlutverk í starfi íþróttahreyfingarinnar og Lárus segir að víða reyni þjálfarar að halda vel utan um um hópana sína og senda myndefni með styrktarefni og þolæfingum. Jákvæð skilaboð hafi verið send til iðkenda og þeim verið falin ýmis verkefni. Meistaraflokkar hafi verið hvattir til að setja saman æfingaefni fyrir yngri iðkendur.