Starkaður og Andrea.

Föstudaginn 30. ágúst kl. 20 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Hafnarborg, annars vegar Allt á sama tíma, haustsýning Hafnarborgar, í sýningarstjórn Andreu Arnarsdóttur og Starkaðar Sigurðarsonar, og hins vegar Fangelsi, ný innsetning myndlistarmannanna Olgu Bergmann og Önnu Hallin.

Hugmyndin með haustsýningu Hafnarborgar í ár, Allt á sama tíma, er að kanna hvernig listamenn takast á við það frelsi sem finnst í myndlist í dag. Hvernig hægt er að búa til merkingu úr list sem getur verið hvað sem er, málverk, barnaleikfang, pappamassi, hreyfing, hugmynd, ópera, gifs. Sýnd verða verk í ólíkum miðlum, frá olíumálverki til gjörninga, og gerð tilraun til að sameina þær dreifðu hugmyndir sem finnast í myndlist samtímans.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Auður Lóa Guðnadóttir, Baldvin Einarsson, Bára Bjarnadóttir, Rúnar Örn Marinósson, Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Steingrímur Gauti Ingólfsson og Valgerður Sigurðardóttir. Allt á sama tíma er níunda sýningin í haustsýningaröð Hafnarborgar, þar sem hugmynd sýningarstjóra er valin úr innsendum tillögum.

Fangelsi.

Innsetning Olgu Bergmann og Önnu Hallin, Fangelsi, byggist á reynslu þeirra við gerð listaverka fyrir fangelsið á Hólmsheiði. Þær velta fyrir sér hugmyndum um eftirlit og frelsisssviptingu með vísunum í „mise en abyme“, eða fyrirbærið „mynd innan í mynd“, sem eins konar táknmynd um lokað samfélag innan samfélagsins. Þar standa íbúarnir utan hins alltumlykjandi eftirlitsamfélags nútímans, sem flestir taka þátt í af meira eða minna fúsum og frjálsum vilja, ólíkt samfélagi fangelsisins og hins stranga innra eftirlits sem þar ríkir í lokuðu kerfi.

Sjá nánar um sýningarnar hér og hér.