Hjólafélagið Bjartur er öflugur hópur fólks sem hittist reglulega og hjólar saman allt árið um kring. Formaðurinn Örn Hrafnkelsson og stjórnarmaðurinn Valur Rafn Valgeirsson hittu blaðamann á kaffihúsinu Pallet til að kynna betur félagið.

„Hjólafélagið Bjartur byrjaði árið 2008 sem félagsskapur nokkurra manna sem ákváðu að hjóla til Akureyrar. Þegar stofnandinn, Ólafur Baldursson sagði móður sinni frá þessum áformum, sagði hún þessi fleygu orð „Óli minn, þú ert bjartur”. Þannig varð hjólreiðafélagið Bjartur til,“ segir Örn léttur.

Formaðurinn léttur

Árið 2011 var félagið svo formlega stofnað og varð í leiðinni fyrsta hjólreiðafélagið í Hafnarfirði.

„Okkar meginmarkmið er að fá fólk til að koma út og hjóla en það er einnig mikið af grjóthörðu keppnisfólki sem æfir hjá okkur. Hér geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Örn og bætir við.
„Margir félagsmenn hafa tekið þátt í WoW-hjólreiðakeppninni en þá alltaf undir merkjum annarra félaga og fyrirtækja. Í sumar vorum við hins vegar með tvö lið í keppninni, sem hétu Bjartur og Bjartari. Markmiðið var að fara hringinn á gleðinni og það tókst mjög vel hjá okkur.“

En hvernig er best að ganga til liðs við Bjart?
„Það er best að senda okkur bara skilaboð í gegnum Fésbókarsíðuna okkar og svo erum við líka með heimasíðuna bjartur.org. Við bjóðum alla velkomna. Það skiptir ekki máli þó að þú eigir ekki nýjustu græjur, við viljum fá þig í Bjart. Við pössum vel upp á alla sem hjóla með okkur og allir gera þetta á sínum forsendum og á sínum hraða. Við erum eina hjólreiðafélagið í Hafnarfirði og við viljum fá fleiri bæjarbúa inn í félagið.“

Góður andi lykilatriði
„Félagsskapurinn er gríðarlega mikilvægur þegar maður er að hjóla. Íþróttin verður einfaldlega miklu skemmtilegri í hóp og það myndast svo góð stemming meðal æfingafélaganna. Við höfum farið í æfingaferðir til Tenerife síðustu fjögur ár og þar höfum við átt frábærar stundir saman.“

Þeir félagar segja aðstöðuna fyrir hjólareiðafólk ekki frábæra en fólk reddar sér bara eins og þörf krefur.

„Við höfum mikið verið að hjóla á svæðinu við Breiðhellu þar sem vegirnir eru nýjir og nánast ónotaðir. Ef það þarf að sópa möl af þessum vegum, höfum við bara mætt galvösk með kústana. Gamli Krýsuvíkurvegurinn hefur einnig mikið verið notaður af hjólreiðafólki en hann er orðinn slitinn og erfiður yfirferðar.“

Umræðan um núning á milli hjólreiðafólks og bílstjóra hefur verið áberandi en Örn er ekkert að flækja hlutina. „Bílstjórar eru eins misjafnir og þeir eru margir. Það má ekki gleymast í umræðunni að hjólreiðafólk þarf líka að sýna tilitssemi og virða umferðareglurnar. Við getum ekki gert þær kröfur að fólk á bílum sýni virðingu og hagi sér almennilega, ef við erum engu skárri,“ segir Örn brosandi að lokum.

Myndir: Siggi Grétar
Texti: Benedikt Grétarsson bgretarsson@gmail.com