Skólastarf í leik- og grunnskólum verður með eðlilegum hætti frá 4. maí og heimilt verður að opna framhalds- og háskóla. Þetta var meðal þess sem fram koma á blaðamannafundi forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar en leyfilegt verður að fara í klippingu og nudd.

Miðað verður við að hámarksfjöldi fólks í einu rými verði 50 manns, í stað 20 nú. Áfram á fjarlægð á milli fólks að vera tveir metrar eða meira.

Nuddstofur og sjúkraþjálfunarstöðvar opnaðar

Heimilt verður að opna hárgreiðslustofur, nuddstofur, sjúkraþjálfun, snyrtistofur, söfn og sambærilega starfsemi 4. maí en halda skal tveggja metra fjarlægð milli viðskiptavina eins og kostur er.

Öll heilbrigðisstarfsemi sem ekki felur í sér valkvæðar skurðaðgerðir verður heimil. Tannlækningar verða einnig heimilar.

Börn mega mæta á íþróttaæfingar

Hvað íþróttastarf barna varðar þá verður það heimilt utandyra ef ekki eru fleiri en 50 saman í hóp. Þá skal vera að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð á milli þeirra, eftir því sem unnt er, sérstaklega hjá eldri börnum.

Aðeins fjórir saman á æfingum fullorðinna

Annað skipulagt íþróttastarf er heimilt utandyra með þeim takmörkunum að ekki mega fleiri en fjórir æfa eða leika saman, snertingar eru óheimilar og halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga. Þá skal notkun á sameiginlegum búnaði haldið í lágmarki en annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar.

Áfram 100 í einu í matvöruverslunum

Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar. Líkt og hingað til verður heimilt að taka á móti 100 viðskiptavinum í matvöruverslunum og lyfjaverslunum hverju sinni að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Reglur um skemmtistaði, krár, spilasali og svipaða starfsemi verða óbreyttar og slíkir staðir því áfram lokaðir.

Mynd/skjáskot úr útsendingu RÚV